Áætlunin sennilega óraunhæf

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Það er skylda borgarfulltrúa að ná tökum á rekstri Reykjavíkurborgar og íbúar hennar eiga heimtingu á að fjármunum þeirra sé ráðstafað með skynsamlegum hætti. Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði að fjárhagsáætlun borgarinnar væri sennilega óraunhæf í síðari umræðum um hana í borgarstjórn. 

Borgarfulltrúinn benti á að útkomuspá ársins í ár væri óravegu frá slæmri fjárhagsáætlun sem meirihlutinn samþykkti í fyrra. Útkoman væri verri en áætlunin gerði ráð fyrir. Samstæða borgarinnar hafi verið rekin með 3,4 milljarða króna halla en í áætluninni hafi verið gert ráð fyrir afgangi.

Fjárhagsáætlunin nú væri heldur ekki glæsileg og sennilega óraunhæf. Halldór sagðist þó vonast til að hún gangi eftir og það takist að snúa rekstrinum við. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins myndu ekki láta sitt eftir liggja við það.

Sagði hann meirihlutann hins vegar ekki vilja heyra tillögur flokks síns enda væri stefna meirihlutans að borgarreksturs væri meginreglan frekar en einkarekstur.

Á meðal breytingartillagna sem Halldór kynnti fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins var að hætta við fjárfestingar í framkvæmdum við Grófarhús, Gröndalshús og Nauthólsveg, endurskoða hlutverk þjónustumiðstöðva til að draga úr kostnaði og samræma þjónustustig þeirra og bjóða út sorphirðu í borginni.

Í bókun sem flokkurinn lagði fram segir meðal annars að forgagnsröðun meirihlutans sé verulega ábótavant og þjónustu við börn og aldraða sé ógnað. Niðurskurðaráform séu óútfærðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert