Betur fór en á horfðist í dag

Björgunarsveitir að störfum í morgun.
Björgunarsveitir að störfum í morgun. mbl.is/Eva Björk

Þó að tugir bílstjóra hafi þurft á aðstoð að halda í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í dag, fella hafi þurft niður ferðir Flugfélags Íslands og mörg hundruð börn hafi ekki skilað sér í grunnskóla höfuðborgarsvæðisins í dag má segja að dagurinn hafi gengið vel og þakkar aðgerðastjórn í Skógarhlíð fólki fyrir að hafa hlustað og farið eftir fyrirmælum vegna óveðursins.

Fjallað var um óveðrið á mbl.is, meðal annars með textalýsingu

Í morgun lá fyrir að veðurspáin var óbreytt, stormur með snjókomu og skafrenningi. Blint var vegna fjúks frameftir morgni en þá fór að létta til. Heldur dró úr vindi eftir hádegi en þá bætti í snjókomuna.

Frétt mbl.is: Kaldur og blautur morgunn

Um hádegisbil sinntu fimmtán ökutæki lögreglu verkefnum í höfuðborginni auk 35 tækja björgunarsveitanna og 135 björgunarsveitarmanna. Þá höfðu sautján útköll borist og hátt í 50 ökutæki losuð. Starfsfólk Íslandspóst reyndi sitt besta til að koma póstinum til skila en ljóst var að það myndi ganga hægt í einhverjum bæjarfélögum.

Þegar leið á daginn fór að bera á gagnrýni á samfélagsmiðlum. Sögðu margir að mikið hefði gert úr veðri sem síðan hafi „varla verið neitt til að tala um.“ Útvarpsmanninum Rikka G brá meðal annars fyrir í innslagi á Facebook-síðu útvarpsstöðvarinnar FM 957 þar sem hann virtist ýja að því að meira hafi verið gert úr óveðrinu en þörf var á. Þá vísaði innslagið einnig til frétt Þorbjörns Þórðarsonar frá mars 2013.

Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögregla hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var ekki á því að of mikið hefði verið gert úr óveðrinu. Dagurinn hefði gengið vel þar sem fólk hafi hlustað og farið eftir fyrirmælum.

„Ein­mitt vegna þess að fólk hlustaði á á skila­boðin höf­um við náð að halda þessu mjög skikk­an­legu. Það er nóg að gera en hefði getað verið marg­falt verra. Þegar snjómokst­urs­tæk­in eru ekki bund­in af föst­um bíl­um get­um við rutt,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því um tvöleytið að ekki væri þörf á að sækja börn í grunnskóla þar sem veðrið væri að ganga niður og því gætu þau gengið heim. Björgunarsveitarmenn verða á ferðinni til kl. 16 að minnsta kosti og lengur ef þörf krefur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert