Síðustu björgunarsveitamenn á leið í hús

Björgunarsveitir hafa aðstoðað fjölmarga bílstjóra í dag.
Björgunarsveitir hafa aðstoðað fjölmarga bílstjóra í dag. mbl.is/Eva Björk

Síðustu björgunarsveitabílarnir á höfuðborgarsvæðinu voru á leið í hús nú á áttunda tímanum eftir viðburðaríkan dag. Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, voru björgunarsveitarmenn að megninu til að aðstoða fasta bíla vegna snjókomunnar sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið.

Aðstoðarbeiðnir til björgunarsveitanna á höfuðborgarsvæðinu voru ríflega hundrað talsins en að sögn Ólafar aðstoðuðu björgunarsveitarmenn mun fleiri þar sem að mestu leyti voru þeir að keyra um og aðstoða vegfarendur.

„Við vorum þegar mest var með 130 björgunarsveitarmenn úti á höfuðborgarsvæðinu, en líka í Vestmannaeyjum, á Akranesi og Suðurnesjunum,“ segir Ólöf. „Það gekk allt bara ótrúlega vel. Það töluðu allir um að það væri frekar lítil umferð miðað við oft áður. Það getur verið að fólk hafi tekið aðvaranir alvarlega í þetta skiptið og það hjálpaði mikið til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert