Greiðslufresturinn framlengdur

Uppbygging í Helguvík hefur verið kostnaðarsöm og nú liggur fyrir …
Uppbygging í Helguvík hefur verið kostnaðarsöm og nú liggur fyrir að Reykjaneshöfn ræður ekki við greiðslur af skuldum sínum.

Hafnarstjórn Reykjaneshafnar hefur komist að samkomulagi við kröfuhafa sína um að framlengja greiðslufrest á skuldum hafnarinnar til 15. janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar í morgun. Fresturinn rann út í gær en ekki náðist lausn í tæka tíð.

Í tilkynningu Reykjaneshafnar dags. 15. október síðastliðinn kom fram að allir þekktir kröfuhafar Reykjaneshafnar sem ættu skuldbindingar sem væru fallnar í gjalddaga hefðu samþykkt að veita greiðslufrest og kyrrstöðutímabil til og með 30. nóvember.

„Síðastliðnar vikur hafa átt sér stað viðræður milli Reykjaneshafnar og kröfuhafaráðs með það að augnamiði að endurskipuleggja fjármál Reykjaneshafnar og er sú vinna enn yfirstandandi. Útséð er að lausn við greiðsluvanda Reykjaneshafnar náist ekki innan fyrrnefndra tímarka og hafa því Hafnarstjórn Reykjaneshafnar og kröfuhafaráð komist að samkomulagi um framlengingu á samþykktum greiðslufrest og kyrrstöðutímabili til og með 15. janúar 2016,“ segir í tilkynningunni.

Skuldbindingarnar sem voru á gjalddaga nema á annað hundruð milljóna króna. Reykja­nes­bær er sam­kvæmt lög­um í ábyrgð fyr­ir skuld­bind­ing­um Reykja­nes­hafn­ar og hefur aðkoma kröfu­hafa Reykja­nes­hafn­ar, í formi end­ur­skipu­lagn­ing­ar skulda, verið sögð for­senda samn­inga um fjár­hags­lega end­ur­skipu­lagn­ingu bæjarfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert