Meira tekið frá ráðhúsinu

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar tekur á sig 5% hagræðingu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 en þjónusta til borgaranna 1,5%. Borgarstjóri segir að staðinn sé vörður um grunnþjónustuna í áætluninni. Skipaður verður stýrihópur um hagræðingaraðgerðir með oddvitum allra flokka.

Síðari umræða um fjárhagsáætlunina í borgarstjórn hófst nú í hádeginu en þar lýsti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hvernig meira væri tekið frá ráðhúsinu og miðlægri stjórnsýslu þess en frá þjónustu við borgarbúa. Með þessum hætti eigi að spara um 1,7 milljarða króna.

Dregið verður úr gjaldskrárhækkunum sem fyrirhugaðar voru vegna lægri verðbólguspár. Þær verða 3,2% líklega í stað 4,9% áður en umræðum um gjaldskrár borgarinnar verður frestað til seinni fundar borgarstjórnar í desember.

Stýrihópurinn mun hafa eftirlit með hagræðingaraðgerðunum sem fyrirhugaðar eru til að bregðast við fjárhagsvanda borgarinnar en hann mun meðal annars vinna með utanaðkomandi rekstrarráðgjafa sem tók þátt í útfærslu Plansins svonefnda til að bjarga fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur. Borgarstjóri sagði að við hagræðinguna nú lærðu menn af reynslunni af því að koma skikki á rekstur OR.

Auk þess verði stýrihópar yfir hverju fagsviði til að halda utan um hagræðingarvinnu á þeim.

Sagðist Dagur hafa trú á að með þessu fyrirkomulagi væri tryggt að öllum steinum væri velt við og sparnaðurinn unnin á faglegan hátt. Það þýði hins vegar að þegar nánari útfærsla á sparnaðinum liggi fyrir í byrjun næsta árs verði þörf á að breyta fjárhagsáætluninni.

Þá nefndi borgarstjóri að til greina komi að selja eignir borgarinnar. Nefndi hann til dæmis húsnæði bókasafnsins við Sólheima, Safamýrarskóla þegar vinnu við nýbyggingar Klettaskóla lýkur, Korpúlfsstaðir og húsnæði Tjarnarskóla við Lækjargötu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert