Mikill viðbúnaður vegna neyðarkalls

Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar voru við það að fara í …
Þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar voru við það að fara í loftið frá Reykjavík þegar það kom í ljós að enginn var í bráðri hættu.

Landhelgisgæslan var með mikinn viðbúnað vegna neyðarkalls sem barst í Eyjafirði á þriðja tímanum í dag, en í tvígang var kallað: „Mayday, mayday“ á neyðar- og uppkallsrás skipa og báta. Það kom hins vegar í ljós að hættan var minni er menn töldu í fyrstu.

Varðstjórar í stjórnstöð Gæslunnar heyrðu kallað eftir aðstoð um klukkan 14.45 á rás 16. Kallið kom inn á móttökuloftnet sem staðsett er á Vaðlaheiði austan megin við Eyjafjörð. 

Starfsmenn Akureyrarhafnar höfðu samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og létu vita að þeir hefðu einnig heyrt kallið á rás 16 í talstöð sem staðsett er í hafnarskrifstofunni á Akureyri. Þar með var ljóst að kallið kæmi einhvers staðar frá í innan við 15 sjómílna fjarlægð frá Akureyri, að því er fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni.

Fram kemur að sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Eyjafjörð hafi verið ræstar út sem og björgunarskipið Sigurvin á Siglufirði. Áhafnir þyrlu og eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar voru einnig ræstar út og lögreglan á Norðurlandi eystra beðin um að athuga hvort mögulegt væri að kallið hefði getað komið frá skipi eða bát í höfninni á Akureyri. Hríseyjarferjan Sævar var einnig beðin um að hefja skipulagða leit inn eftir Eyjafirðinum.  Samhæfingarstöðin í Skógarhlið var einnig virkjuð með staðlaðri áhöfn fyrir leit og björgun á sjó.

Þá segir að um klukkan 16 þegar björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar var lagt af stað frá Siglufirði, björgunarbátar komnir til leitar á Eyjafirði og þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar við það að fara í loftið frá Reykjavík þá tilkynnti lögreglan á Norðurlandi eystra að uppgötvast hefði að neyðarkallið hefði komið frá erlendu skipi í höfninni og hefði maður sem átti erindi um borð viðurkennt að hafa sent það út.  

Voru því leitar- og björgunareiningar afturkallaðar og frekari aðgerðum hætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert