Íslendingur dæmdur í Bretlandi

Maðurinn sveik 30 þúsund pund af konunni.
Maðurinn sveik 30 þúsund pund af konunni. AFP

Íslendingur sem sveik næstum því 30 þúsund pund (rúmlega 6 milljónir íslenskra króna) af breskri kærustu sinni  hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í Leeds. Maðurinn heitir Guðfinnur Óskarsson og er 33 ára gamall.

Í frétt The Yorkshire Post kemur fram að Guðfinnur hafi kynnst Victoria Maker á stefnumótasíðu í ágúst 2013. Hann flutti fljótlega inn til Maker eftir að hafa sagt henni að hann gæti ekki yfirgefið Bretland vegna launa sem hann ætti eftir að fá.

Að sögn saksóknara í málinu samþykkti Maker að halda Guðfinni uppi þar til hann fengi sín laun. Guðfinnur sagði henni einnig að hann þyrfti að stunda vinnu erlendis og borgaði Maker fyrir hann flugmiða í sex mánuði.

Á meðan þau voru saman seldi hún heimili sitt fyrir 190 þúsund pund og þau fluttu saman inn í leiguíbúð í Roundhay í Leeds.

Í ágúst á síðasta ári fékk Guðfinnur Maker til að leggja inn á hann 153 þúsund pund eftir að hann sagðist ætla að setja peningana inn á norskan bankareikning og græða á vöxtunum. Eftir að hafa millifært inn á hann bað Maker um að sjá kvittanir frá norska bankanum án árangurs.

Síðar sagði Guðfinnur henni að hann hefði verið ráðinn í vinnu og gæti borgað leigu á íbúð þeirra sem var 650 pund á mánuði. Hinsvegar kom í ljós að hann notaði peningana sem hún hafði lagt inn á hann til að greiða leiguna.

Í mars á þessu ári gekk Maker á Guðfinn og bað hann um peningana til baka. Hann gat greitt henni 25 þúsund pund en sagðist svo vera á leið til Íslands til að vinna í fjórar vikur. Á meðan hann var á Íslandi fann Maker bankayfirlit í eigu Guðfinns þar sem það sást að peningarnir sem hún hafði lagt inn á hann hefðu aldrei verið teknir út af bankareikningi Guðfinns. Hún hafði samband við lögreglu eftir að Guðfinnur hætti að svara smáskilaboðum og tölvupóstum hennar.

Guðfinnur var síðan handtekinn á Heathrow-flugvelli á leið til Washington í Bandaríkjunum. Hann játaði sök.

Verjandi Guðfinns sagði skjólstæðing sinn hafa verið „ótrúlega ástfanginn“ af Maker en það hefði angrað hann að hún hefðfi þurft að halda þeim uppi. Virðist það hafa verð ástæðan fyrir því að hann sveik af henni fé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert