Stal rauðvíni, veski og bíllyklum

mbl.is/Ásdís

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í tveggja mánaða fangelsi fyrir auðgunarbrot. Maðurinn hefur hlotið marga dóma frá árinu 2007 og hóf þegar afplánun á Litla-Hrauni í ágúst sl.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi ákærði manninn í september sl. fyrir innbrot og þjófnað, en hann braust inn á veitingastað á Selfossi í ágúst og stal þaðan skiptimynt, þremur Rioja-rauðvínsflöskum, veski og lyklum að tveimur bifreiðum, allt að óþekktu verðmæti.

Þegar maðurinn kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins neitaði hann sök. Var honum þá skipaður verjandi að hans ósk. Þegar maðurinn kom aftur fyrir dóminn ásamt verjanda í nóvember óskaði hann eftir að breyta afstöðu sinni til sakarefnisins þannig að hann játaði skýlaust sök.

Hinn 25. nóvember 2015 var málið tekið fyrir á ný samkvæmt ákvörðun dómara þar sem dómari taldi nauðsynlegt að lagt yrði fram vottorð Fangelsismálastofnunar ríkisins um reynslulausn sem manninum var veitt 22. febrúar 2015. 

Fram kemur í dómnum, að samkvæmt framlögðu sakavottorði nái sakaferill mannsins allt aftur til ársins 2007 en hann hefur hlotið refsingu á hverju ári fram til ársins 2013 fyrir margvísleg brot, þar af oftar en einu sinni fyrir þjófnað. Síðast var hann dæmdur 25. nóvember 2013 í 90 daga óskilorðsbundið fangelsi vegna aksturs sviptur ökurétti og akstur undir áhrifum fíkniefna. Honum var veitt reynslulausn 22. febrúar sl. á eftirstöðvum refsingar, 280 dögum. Við ákvörðun refsingar í máli þessu virkar langur brotaferill ákærða til refsiþyngingar, en hins vegar hefur maðurinn ekki hlotið  refsingu í rösk tvö ár og skoðast hegðun hans að undanförnu sem málsbætur.

Maðurinn hóf afplánun framangreindra 280 daga eftirstöðva refsinga hinn 31. ágúst sl. samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Eru ekki skilyrði til að dæma upp eftirstöðvarnar.

„Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til hreinskilnislegrar játningar hans og þess að verðmæti andlags þjófnaðarbrots ákærða var óverulegt. Þykir hæfileg refsing ákærða fangelsi í 2 mánuði,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá var hann dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, en aðeins er um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem eru ákveðin 225.060 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert