„Þetta var mjög öflugt viðbragð“

Starfsmenn Akureyrarhafnar höfðu samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og létu vita …
Starfsmenn Akureyrarhafnar höfðu samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og létu vita að þeir hefðu einnig heyrt kallið á rás 16 í talstöð sem staðsett er í hafnarskrifstofunni á Akureyri.

Lögreglan á Akureyri hefur haft afskipti af manni sem sendi út falskt neyðarkall í Eyjafirði á þriðja tímanum í dag. Maðurinn, sem kallaði „Mayday, mayday“ á neyðar- og uppkallsrás skipa og báta, ber því við að þetta hafi verið óviljaverk - gert í gáska. Lögreglan lítur málið mjög alvarlegum augum, enda var Landhelgisgæslan og björgunarsveitir með mikinn viðbúnað vegna málsins.

Jóhannes Sigfússon, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, segir í samtali við mbl.is, að það eigi eftir að taka formlega skýrslu af manninum, sem er á þrítugsaldri. Maðurinn var að vinna um borð í skipi í Akureyrarhöfn sem verktaki þegar þetta gerðist, en hann er ekki á meðal skipverja. Jóhannes segir að maðurinn haldi því fram að þetta hafi verið óviljaverk. Hann hafi ekki áttað sig á því að rásin væri opin. 

Aðspurður segir Jóhannes að lögreglan líti málið alvarlegum augum. „Það er þakkarvert að það skyldi upplýsast svona fljótt hvaðan þetta kom, vegna þess að það var sett mjög öflugt viðbragð af stað. Kostnaðartölur hefðu farið að hlaupa á milljónum mjög fljótlega ef það hefði ekki fundist hvaðan þetta kom,“ segir Jóhannes. Hann bætir við að mörg hundruð björgunarsveitarmenn hafi verið ræstir út vegna málsins. „Þetta er mjög öflugt viðbragð.“

Sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Eyjafjörð voru ræstar út sem og björgunarskipið Sigurvin á Siglufirði. Áhafnir þyrlu og eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar voru einnig ræstar út og lögreglan á Norðurlandi eystra beðin um að athuga hvort mögulegt væri að kallið hefði getað komið frá skipi eða bát í höfninni á Akureyri. Hríseyjarferjan Sævar var einnig beðin um að hefja skipulagða leit inn eftir Eyjafirðinum. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var einnig virkjuð með staðlaðri áhöfn fyrir leit og björgun á sjó. 

Það var um klukkan 16 sem menn áttuðu sig á því sem hafði gerst og voru því leitar- og björgunareiningar afturkallaðar og frekari aðgerðum hætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert