Ruðningstæki hafa ekki undan

Það er mikill snjór á höfuðborgarsvæðinu
Það er mikill snjór á höfuðborgarsvæðinu mbl.is/Árni Sæberg

Unnið hefur verið að snjóruðningi í Reykjavík síðan í nótt og verða yfir 20 tæki að störfum í dag við að ryðja götur, göngu- og hjólastíga. Mokstur gengur hægt enda gríðarlegt fannfergi á höfuðborgarsvæðinu. 

Björn Ingvars­son, deild­ar­stjóri þjón­ustumiðstöðvar Reykja­vík­ur­borg­ar, segist eiga vona á því að mokstur taki einhverja daga en það verði metið í dag, með tilliti til veðurútlits, hvort farið verður í að fjarlægja snjó úr einhverjum götum.

Það fóru allir bílar út klukkan fjögur í nótt og eru þrettán tæki að störfum við að breikka ruðninga og þar með auðvelda akstur um borgina, segir Björn í samtali við mbl.is. Tækin eru enn að en fjölgað verður í 22-25 tæki þegar aðeins fer að hægja á umferðinni og tækin komast betur að. 

Björn segir að það geti tekið einhverja daga að ryðja allar götur í hverfum borgarinnar en strax í nótt var farið að ryðja göngu- og hjólreiðastíga en það starf mætti ganga betur segir Björn. Hann segir að útlitið sé ekki bjart þegar horft er til veðurútlits en allt verði gert til þess að ljúka mokstri eins fljótt og auðið er.

Óveður í Hófaskarði

Vetrarfærð er um allt land, hálka eða einhver snjór á vegum. Víða er færð ekki fullkönnuð en verið er að skoða og hreinsa vegi. Upplýsingar eiga að skýrast betur fyrir klukkan átta.

Það er hálka á Sandskeiði og Hellisheiði en snjóþekja í Þrengslunum. Á Suðurlandi er víðast snjóþekja eða þæfingur en Lyngdalsheiðin er ófær. Hálka er á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut og á Suðurnesjum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra má segja að það sé hæglætisveður en víða er nokkur ofankoma. Víða er enn nokkur fyrirstaða en verið er að hreinsa vegi.

Það fennir talsvert á Norðurlandi eystra og þar er sumstaðar enn býsna hvasst. Óveður er í Hófaskarði og ófært en stórhríð á Brekknaheiði. Þungfært er á Háreksstaðaleið, Fjarðarheiðin er ófær en fært er fyrir fjórhjóladrifna bíla á Fagradal og Oddsskarði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert