Ásakar lykilvitni um innherjasvik

Hreiðar Már Sigurðsson, ásakaði í ávarpi sínu núverandi framkvæmdastjóra Arion …
Hreiðar Már Sigurðsson, ásakaði í ávarpi sínu núverandi framkvæmdastjóra Arion banka um innherjasvik. mbl.is/Þórður

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, fór mikinn í ávarpi sínu fyrir dómi í Chesterfield-málinu svokallaða og ásakaði meðal annars lykilvitni í málinu um innherjasvik. Mótmælti saksóknari málflutningi hans og endaði ávarpaði með að dómari stöðvaði Hreiðar Má og skipaði að yfirheyrsla yfir honum myndi hefjast.

Tilgangurinn ekki að valda bankanum tjóni

Hreiðar Már hóf ávarp sitt á að segja að í gegnum síðustu sjö ár af ásökunum frá saksóknara og í gegnum fjölmiðla þá hafi það sært hann mest að vera sagður hafa ætlað að valda Kaupþingi skaða. Rakti hann ástæður þess  að farið hafi verið í þau viðskipti sem ákært er fyrir og að ákvarðanir hefðu verið teknar eftir ráðgjöf yfirmanna Deutsche bank um endurkaup á skuldabréfum bankans og að kaupa skuldabréf tengdum skuldatryggingum bankans. Sagði hann að meðal annars hafi verið tekin ákvörðun um þau viðskipti í ljósi þess að innlánasöfnun bankans erlendis hafi gengið vel og stjórnendur talið bankann njóta trausts.

Spurði Hreiðar Már sjálfan sig hvert markmiðið hafi verið af þessu. „Að valda Kaupþingi tjóni? Auðga ákveðna viðskiptavini? Nei það var ekki tilgangurinn með viðskiptunum,“ sagði hann.

Segir saksóknara ekki hlutlausan

Gagnrýndi hann saksóknara fyrir að hafa ekki haft upplýsingar um ráðgjöf Deutsche bank í gögnum málsins og að þau væru grunnur að þeim viðskiptum sem hefðu átt sér stað. Sagði hann skýrslu saksóknara í málinu ekki vera hlutlausa heldur hafi hún frá upphafi verið sett fram til að koma ákveðnum bankamönnum í fangelsi. Sagði Hreiðar Már skýrsluna vera „handrit að sakfellingu,“ frekar en upplýsingar frá hlutlægum saksóknara.

Á þessum tíma var saksóknari orðinn ósáttur með ávarpið og sagði hann að Hreiðar Már væri kominn út fyrir atvik málsins. Dómari leyfði honum þó að halda áfram. Hreiðar Már sagði þá saksóknara reyna að drekkja dómstólnum í skjalaflóði með um 7 þúsund blaðsíðum sem væru ekki í neinni sérstakri tímaröð. Þess í stað væri um 200 blaðsíðna skýrsla ákæruvaldsins sem hann hafði áður sagt að væri ekki hlutlaust skjal.

„Hann er að bera sakir á annan mann“

Hreiðar Már fór svo að rifja upp hvað hafði fundist í tölvupóstum vitnisins Halldórs Bjarkar Lúðvíkssonar, sem ákærðu fengu aðgang að með dómi í síðustu viku. Sagði hann þar koma fram að framburður Halldórs væri rangur og að hann hafi í miðju máli snúið framburði sínum við. Þannig hafi Halldór verið í samskiptum við yfirmann sinn varðandi samþykki fyrir útgreiðslu þeirra lána sem ákært er fyrir og að Hreiðar hafi ekki tekið ákvörðun um það.

Rifjaði Hreiðar Már svo upp að Halldór hefði selt öll bréf sín í bæði Exista og Kaupþingi vegna vitneskju sinnar sem starfsmaður Kaupþings. Hann hafi sagt að sér litist ekki á útlánsmálin hjá Kaupþingi á þessum tíma og því ákveðið að selja. Mótmælti saksóknari hvert ávarpið væri nú komið. „Hann er að bera sakir á annan mann,“ sagði Björn Þorvaldsson, saksóknari. Dómari leyfði Hreiðari Má þó að halda áfram.

Segir Halldór hafa framið innherjasvik

Sagði Hreiðar Már að sérstakur saksóknari hefði í tvígang ákært menn fyrir innherjasvik en að nú væri það ekki gert þrátt fyrir þessa vitneskju. Sagði hann ljóst að saksóknara liði illa undir þessum lestri sínum, en hann sagði þessar upplýsingar um viðskipti Halldórs og meint innherjabrot skipta höfuðmáli varðandi hvernig hann hafi breytt framburði sínum hjá saksóknara og tekist að „sleppa við ákæru sérstaks saksóknara og sitja á þýfi sínu.“

Hreiðar hélt áfram: „Hvað með þá fjárfesta sem keyptu bréfin af Halldóri Bjarkar.“ Spurði hann saksóknara hvort hann ætlaði að bæta fjárfestum það. Sagði hann Halldór hafa setið á andvirði bréfanna, um 5 milljónum eftir viðskiptin og svo haldið áfram í framkvæmdastjórn Kaupþings og Arion banka, en Halldór starfar sem framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs. Sagði Hreiðar hann nú hafa fengið um 150 milljónir í laun á þeim sjö árum sem liðin væru frá falli Kaupþings.

Sagði Hreiðar að Halldór hefði einnig verið lykilvitni í Al-thani málinu þar sem Hreiðar Már var meðal annars dæmdur til fangelsisvistar. Sagði hann að dómurinn hefði ekki verið upplýstur um þessi „innherjasvik“ Halldórs þá en það hefði haft áhrif á niðurstöðu hans. Pétur Guðgeirsson, dómsformaður, taldi að þetta væri nóg í bili. „Nú er nóg komið,“ sagði hann og bað saksóknara að hefja vitnaleiðslu sína yfir Hreiðari Má.

Uppfært 13:07: Bætt við fréttina að félögin tvö sem Hreiðar sagði Halldór Bjarkar hafa selt í voru Kaupþing og Exista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert