Umboðssvik eða góð viðskiptahugmynd?

Úr réttarsal í morgun.
Úr réttarsal í morgun. mbl.is/Golli

Í Chesterfield-málinu sem hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag takast á tvær mismunandi hliðar sem saksóknari og verjendur leggja upp með. Meðan saksóknari telur lánveitingar Kaupþingsmanna vera umboðssvik byggir vörn Kaupþingsmanna á að lánin hafi verið veitt í þeirri trú að engin áhætta hafi verið fyrir bankann.

Í yfirheyrslum yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra og Sigurði Einarssyni, fyrrum stjórnarformanni Kaupþings, hefur oft komið fram að þeir hafi talið stöðu bankans mjög góða, sérstaklega í ljósi þess óróa sem var á markaði, alveg þangað til íslenska ríkið tók Glitni yfir í lok september og neyðarlögin voru sett á í byrjun október.

Miðað við þá stöðu hafi ekki verið slæm viðskiptaleg ákvörðun að lána fjórum aflandsfélögum tugi milljarða til kaupa á lánshæfistengdum skuldabréfum sem tengd voru skuldatryggingarálagi Kaupþings af Deutsche bank. Bæði telja yfirmenn bankans að þetta hafi getað bætt skuldatryggingarálag bankans sem og ef allt gengi vel bætt stöðu stórra viðskiptavina sem voru í erfiðri stöðu og þar með styrkt útlán Kaupþings.

Saksóknari telur aftur á móti að með þessum lánagjörningi hafi fé bankans verið stefnt í verulega hættu og að það hafi allt tapast með falli Kaupþings.

Verjendur í málinu og ákærður hafa ítrekað að streymi innlána hafi verið mikið erlendis frá og bankinn í raun í betri stöðu en mjög margir evrópskir bankar. Aftur á móti hafi ákvarðanir sem voru þeim ótengdar valdið því að bankinn féll.

Á morgun halda yfirheyrslur áfram og í framhaldinu vitnaleiðslur. Á fimmtudaginn er svo gert ráð fyrir að málflutningur verjenda hefjist, en málið ætti að klárast öðru hvoru megin við helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert