„Allir vel á tánum“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur sinnt sex útköllum vegna vatnstjóns víðsvegar um höfuðborgarsvæðið frá því klukkan sex í morgun. Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir að ástandið sé vonum framar og greinilegt að fólk hafi verið vel á tánum eftir viðvaranir síðustu daga.

Mesti lekinn var í íbúðarhúsnæði á Kjalarnesi en Rúnar Helgason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að almennt hafi ekki orðið mikið tjón af völdum vatns, enn sem komið er.

Slökkviliðið var með viðbúnað vegna mögulegs vatnstjóns en með óveðrinu í gær og nótt átti að fylgja úrkoma og þíða. Rúnar segir þó að úr úrkoman hafi ekki orðið eins mikil og spáð hafði verið og það hafi hjálpað til. Áfram megi þó búast við að hætta sé á vatnstjóni.

Borgarbúar hafi verið duglegir að búa sig undir aðstæður og hreinsa frá niðurföllum en varað hafði verið við því að vatnselgur gæti myndast þegar snjór sem safnast hefur upp á höfuðborgarsvæðinu síðustu vikur bráðnaði. Var fólki ráðlagt að moka frá húsveggjum og svölum.

„Þetta hefur bara gengið þokkalega og vonum framar í rauninni. Það hafa greinilega allir verið vel á tánum eftir viðvaranir. Fólk á þakkir skildar fyrir tillitssemi og fyrirhyggju,“ segir Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert