Draumaviðskipti sem enginn gat tapað á

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, mætir í dómssal.
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, mætir í dómssal.

Sönnunarfærslu saksóknara í Chesterfield-málinu skortir alveg og ekki er getið í ákæru málsins fyrir hvað er nákvæmlega ákært. Þetta hefur verið meginstefið í yfirheyrslu yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrv. forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, í dag. „Það er hægt að ákæra mig fyrir allt í heiminum,“ sagði Magnús í eitt skiptið og beindi því til dómara að gera þyrfti ríkari kröfu um sönnunarfærslu eftir að saksóknari hafði spurt hann spurningar sem Magnús taldi eiga að bendla hann við ákvörðun um lánveitingu sem ákært er fyrir í málinu.

Segist ekki tengjast lánveitingum

Magnús hefur ítrekað neitað að tengjast lánveitingum málsins. Það liggi þó fyrir að hann hafi komið fram fyrir hönd viðskiptavina Kaupþings í Lúxemborg í málinu, en nokkrir stórir viðskiptavinir fengu lánaða tugi milljarða til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf tengd skuldatryggingarálagi Kaupþings.

Áður en Magnús var spurður af saksóknara fékk hann tækifæri á að tjá sig um málið og hélt hann um 45 mínútna ávarp þar sem hann fór ítarlega í hvern ákærulið fyrir sig og aðkomu sína að þeim. Í málinu hefur verið deilt um hvort skuldabréfin sem lánað var til að kaupa væru áhættulaus eða áhættumikil, en Magnús sagði að allir hefðu talið þau vera trausta pappíra. „Annað er bara eftiráskýring,“ sagði Magnús.

Í málinu er Magnús ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum ásamt fyrrv. stjórnendum Kaupþingssamstæðunnar, Hreiðari Má Sigurðssyni og Sigurði Einarssyni.

Titringur milli saksóknara og ákærða

Saksóknari fór yfir fjölda tölvupósta milli aðila í málinu og annarra starfsmanna bankans og spurði Magnús um þá. Talsverður titringur var á milli saksóknara og Magnúsar í yfirheyrslunni, en Magnús hélt því fram að tölvupóstssamskiptin sýndu oft á tíðum að hann væri saklaus af ákæru meðan saksóknari taldi þau ýta undir sekt hins ákærða.

Meðal annars bar hann undir Magnús nokkra pósta þar sem Magnús sagði „við“ og í kjölfarið að gera þyrfti eitthvað í málinu. Magnús virtist orðinn nokkuð pirraður á ítrekuðum spurningum um þetta og sagði ljóst að þar væri hann að tala um margt þyrfti að gera til að viðskiptin gætu átt sér stað, ekki bara lánveitingar, og þar væri hann að tala um hlut Kaupþings í Lúxemborg.

Áhættulaus viðskipti fyrir alla

Saksóknari hefur ítrekað gert sér mat úr því að eignarhaldsfélög þriðja aðila (stórra viðskiptavina bankans) hafi átt að græða á viðskiptunum án þess að taka neina áhættu, en Magnús sagði að það væru í raun heildarhagsmunir Kaupþings sem um væri að ræða. Bæði væri jákvætt fyrir Kaupþing að reyna að lækka skuldatryggingarálagið og þá gæti hagnaður fyrir eignarhaldsfélögin lækkað gríðarlega miklar skuldir þeirra gagnvart Kaupþingi.

Sagðist Magnús hafa litið á þetta sem áhættulaus viðskipti fyrir alla aðila, en eini möguleikinn á tapi hefði verið fall Kaupþings eða Deutsche Bank, sem enginn hefði gert ráð fyrir. „Voru þetta draumaviðskipti sem enginn gat tapað á?“ spurði þá saksóknari og svaraði Magnús því játandi.

Yfirlitið vekur hughrif

Meðal félaga sem fengu lánað í viðskiptunum var Holly Beach sem er í eigu fjárfestisins Skúla Þorvaldssonar. Staða þessara félaga var talsvert slæm þegar lánin voru veitt og sagði Magnús meðal annars að hann hefði litið svo á að Holly Beach hefði verið tæknilega gjaldþrota þegar því var veitt lán upp á nokkra milljarða króna. Varpaði saksóknari í framhaldinu upp skjali sem átti að sýna fram á mikla neikvæða stöðu félagsins og annarra félaga. Var þar staða Holly Beach sögð neikvæð um 86 milljónir evra og Charbon capital um 77,2 milljónir evra.

Þegar Magnús sá þetta skjal sagði hann að þar væri saksóknari aftur að reyna að vekja hughrif hjá dómurum og benti á að þar vantaði að taka mið af eignum félaganna á móti skuldum, en saksóknari og Hreiðar Már höfðu í gær deilt um yfirlitið. „Ég sá á svipnum þínum að þú vissir að yfirlitið væri rangt,“ sagði Magnús og var orðið nokkuð heitt í hamsi.

Saka núverandi framkvæmdastjóra Arion um lögbrot

Eins og í yfirheyrslu saksóknara yfir Hreiðari Má í gær vísaði Magnús bæði beint og óbeint á annan starfsmann Kaupþings. Er það Halldór Bjarkar Lúðvíksson, núverandi framkvæmdastjóri hjá Arion banka, og hafa ákærðu í málinu sagt hann geranda í málinu. Sagði Magnús að meðal annars hefði Halldór „skitið upp á bak“ í nokkrum útlánamálum sem hefðu endað í fanginu á Kaupþingi í Lúxemborg. Þar hefði komið í ljós að veitt hafði verið lán án veða og trygginga og það hefði valdið miklu öngþveiti á sama tíma og bankinn var að falla.

Þá sakaði Magnús Halldór um lygar í Al-Thani-málinu, en Magnús var þar dæmdur og sagði hann að ljóst væri að bréf sem Halldór sendi og sagði að Magnús og Hreiðar Már hefðu stjórnað málinu væri eina gagnið gegn sér. Sagði hann Halldór hafa logið til í því máli og sama ætti við í þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert