Framburðurinn stangast á

Ólafur Ólafsson, fjárfestir, við Al-thani málið fyrir tveimur árum.
Ólafur Ólafsson, fjárfestir, við Al-thani málið fyrir tveimur árum. Ómar Óskarsson

Viðskiptin með láns­hæfistengt skulda­bréf sem Kaupþing lánaði félaginu Harlow, félagi í eigu fjárfestisins Ólafs Ólafssonar, voru án áhættu fyrir hann og væntur hagnaður átti að bæta stöðu félagsins, sem á þeim tíma var með sjö milljarða jákvæða stöðu. Þetta sagði Ólafur sem vitni fyrir héraðsdómi í dag, en aðalmeðferð í Chesterfield-málinu fer nú fram.

Stangast á við framburð ákærðu

Áður hafði komið fram í málinu að viðskiptin væru til hagsbóta fyrir Kaupþing, bæði til að bæta skuldatryggingarálag bankans og vegna þess að mögulegur hagnaður af viðskiptunum færi í að greiða upp skuldir félaga sem skulduðu Kaupþingi háar upphæðir og ekki væri líklegt að yrðu greiddar. Framburður Ólafs stangast því talsvert á við það sem hafði komið fram í málflutningi ákærðu í málinu, en þeir afplána nú dóma á Kvíabryggju ásamt Ólafi. Eru það þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrv. stjórnarformaður bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.

Félag Ólafs var annar hluti af Chesterfield-málinu, en þar voru félaginu Harlow lánaðar 130 milljónir evra. Félagið lánaði upphæðina svo áfram til félagsins Partridge sem einnig var í eigu Ólafs, til kaupa á lánshæfistengdu skuldabréfi sem tengt var við skuldatryggingarálag Kaupþings. Síðar komu veðköll vegna viðskiptanna og lánaði Kaupþing þá Partridge 125 milljónir evra beint til að mæta þeim.

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson.

Heimilaði viðskipti upp á 255 milljónir evra

Saksóknari spurði Ólaf út í hvernig viðskiptin hefðu komið til og sagði Ólafur að hann gæti ekki svarað því því hann vissi það ekki. Vísaði hann í samþykkt sem hann hefði undirritað þess efnis að Harlow gæti tekið lán hjá Deutsche bank upp á 125 milljónir evra og upp á 130 milljónir frá ótilgreindri bankastofnun. Sagði hann að Hreiðar Már hefði upphaflega upplýst sig um málið

Vissi ekki af veðköllunum

Saksóknari vildi þá vita hvort hann væri kunnugur lánshæfisskuldabréfum og sagði Ólafur svo ekki vera. Þegar hann var spurður út í ástæðu þess að hann hefði þá ákveðið að taka þátt í viðskiptunum sagði hann að áhætta hans hefði verið takmörkuð, en lánað var 100% fyrir þeim. Sagði hann að hagnaðurinn hefði svo átt að fara í að styrkja félagið, en á þeim tíma hefði eigið fé þess verið um sjö milljarðar. Vísaði hann meðal annars í greiningu Kaupþings á félaginu þar sem kom fram að eignir félagsins væru góðar og möguleikar ávöxtunar í framtíðinni einnig.

Ólafur sagði aftur á móti að sér hefði ekki verið kunnugt að Kaupþing hefði lánað Partridge til að greiða veðkall Deutsche bank eða hver upphæðin hefði verið.

Spurði saksóknari hann þá hvort honum hefði verið ljóst að áhættuskuldbindingar hans hefðu aukist um 255 milljónir evra á rúmum mánuði án þess að vita hver lánveitandinn væri. „Er ég ekki búinn að svara því?“ svaraði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert