Hausinn horfinn af sjóvarnargarði í Vík

Á myndinni sést hvað sjórinn hefur grafið úr garðinum hlémegin.
Á myndinni sést hvað sjórinn hefur grafið úr garðinum hlémegin. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Sjóvarnargarður suður af húsi Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal skemmdist illa í óveðri næturinnar en sjór flæddi yfir garðinn og inn á lóð Vegagerðarinnar.

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir ekkert liggja fyrir um hvenær farið verði í viðgerðir á garðinum. Segir hann stórt skarð komið í ströndina austan meginn og segir það minnst 10 til 15 metra. 

„Garðurinn var byggður árið 2011 og var tilraunaverkefni,“ segir Ásgeir. „Hann hefur sannað gildi sitt og hjálpað við að verja ströndina en hann hefur látið verulega á sjá.“

Ásgeir segir viðgerðir á garðinum löngu tímabærar og um það hafi verið rætt við Vegagerðina sem og þingmenn.

„Það voru allir meðvitaðir um að hann mátti ekki við miklu en hann skaddaðist verulega í þessu óveðri. Það má segja að hausinn á honum sé eiginlega horfinn.“

Samkvæmt Ásgeiri stóð til að byrjunarfjármögnun garðsins færi á fjárlög 2016 en að hún hafi verið færð til ársins 2017.

„Eins og þetta lítur út á fjárlögunum verður líklega ekki farið í þetta fyrr en 2018 en við höfum engan tíma til að bíða eftir því. Það er alveg ljóst að það þarf að grípa inn í strax.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert