Fá ekki flutning frá Kvíabryggju

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarssonar í dómsal fyrr í …
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarssonar í dómsal fyrr í vikunni ásamt lögfræðingum ákærðu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson, fyrrum yfirmenn hjá Kaupþingi og ákærðu í Chesterfield-málinu mættu ekki í dómsal í morgun, en þeir fóru upp á Kvíabryggju í gær, þar sem þeir afplána nú fyrri dóma.

Verjandi Sigurðar, Gestur Jónsson, segir að þrímenningunum hafi verið ekið á Kvíabryggju í gær, en ekki fengið leyfi til að koma aftur í dómsalinn í dag, þótt þeir hafi viljað mæta. Segir hann að ekki hafi fengist flutningur fyrir þá.

Nú stendur yfir aðalmeðferð Chesterfields-málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hófst hún á mánudaginn og voru yfirheyrslur yfir þremenningunum í gær og fyrradag. Hreiðar og Sigurður kláruðu yfirheyrslur á mánudaginn, en vegna veðurs og ófærðar var ekki mögulegt að keyra þá til baka upp á Snæfellsnes. Í gær var Magnús svo yfirheyrður, auk þess sem önnur vitni voru yfirheyrð. Í dag hélt vitnaleiðslan áfram og er áformað að hún klárist í dag.

Í bæði markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og Marple-málinu hafa ákærðu áður gagnrýnt aðstöðuna sem þeir geta fengið meðan á réttarhöldum stendur, en þá býðst þeim að vera í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Hefur meðal annars komið að erfitt sé að hvílast þar og að aðstaða til að ræða við verjendur sé bágborin. Hafa ákærðu því hingað til valið að fara upp á Kvíabryggju þegar vitnaleiðslum yfir þeim var lokið. Magnús var þó undantekningin, en í markaðsmisnotkunarmálinu var hann allan tímann í dómsal.

Það er því nokkuð fámennara í dómsalnum í dag en síðustu tvo daga, en auk saksóknara, dómara og verjenda eru aðeins blaðamenn og nokkrir lögfræðingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert