Gestur fór „óendanlega“ í taugarnar á Sigurði

Gestur Jónsson, ásamt Sigurði Einarssyni.
Gestur Jónsson, ásamt Sigurði Einarssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Áralangt deilumál í tengslum við rannsókn á hrunmálunum svokölluðu hélt áfram í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar aðalmeðferð Chesterfield-málsins fór fram. Mætti Jón Óttar Ólafsson, fyrrum starfsmaður embættisins, sem vitni en hann hefur áður gagnrýnt starfsaðferðir saksóknara og sagt hleranir hafa verið gerðar með ólöglegum hætti. Verjendur í málunum hafa ítrekað notað framburð hans til að saka embættið um ólögmæta rannsóknarhætti. 

Greinargerðin sem segir Halldór líklegan sakborning

Í gögnum málsins er meðal annars greinargerð sem Jón gerði fyrir ákærðu í málinu eftir að hann hætti hjá sérstökum saksóknara. Niðurstaða hans er að fyrrum viðskiptastjóri Kaupþings og núverandi framkvæmdastjóri Arion banka, Halldór Bjarkar Lúðvíksson, sé líklega sakborningur í málinu. Hafa verjendur í málinu hingað til gert mikið úr hans hlut í málinu og ákærðu meðal annars ásakað hann um að hafa framið lögbrot og að ljúga í skýrslutöku hjá lögreglu.

Í vitnaleiðslunni í dag var farið yfir starfsferil Jóns og svo aðdraganda þess að hann gerði greinargerðina, sem hann kallaði sjálfur minnisblað. Sagði Jón að hann hefði ákveðið að benda þeim á ýmsa vankanta í málinu en ekkert ákveðið að rukka fyrir viðvikið. Greinargerðin var skrifuð á bréfsefni lögfræði- og ráðgjafafyrirtækis Jóns, Juralis, og spurði saksóknari út í ástæður þess. Sagði Jón að það sýndi ekki fram á neina greiðslu, heldur væri hann sjálfur í raun fyrirtækið.

Sigurður Tómas Magnússon, ráðgjafi sérstaks saksóknara og fyrrum settur saksóknari.
Sigurður Tómas Magnússon, ráðgjafi sérstaks saksóknara og fyrrum settur saksóknari. mbl.is/G.Rúnar

„Rukkaði svo aldrei neitt fyrir þetta“

Saksóknari spurði hann þá ítrekað hvort hann hefði fengið greiðslu fyrir vinnuna en Jón neitaði alltaf. „ég benti þeim á ýmsa vankanta, en rukkaði svo aldrei neitt fyrir þetta,“ sagði Jón.

Talsverð spenna var komin upp á milli saksóknara og Jóns á þessum tíma og þegar saksóknari sagðist ætla að spyrja hann út í starfslok sín hjá saksóknara varð Jón nokkuð æstur. Hann hafi ásamt samstarfsfélaga sínum ákveðið að stofna ráðgjafafyrirtækið og farið í 50% starfshlutfall og seinna í 0% starfshlutfall. „Ég var ekki rekinn,“ sagði Jón og bætti við að hann hefði heyrt það úr ýmsum áttum innan saksóknaraembættisins að hann hefði verið rekinn. Hann vildi koma því sérstaklega fram að svo væri ekki.

Saksóknari spurði hann næst út í kæru embættis sérstaks saksóknara, en hann var kærður fyrir brot í starfi. Jón svaraði fljótt að hann hefði jú verið kærður en að málið hafi verið fellt niður af ríkissaksóknara. Saksóknari spurði hann þá hvort hann væri bitur út í embættið. „Það þarf ekki sálfræðing til að heyra það,“ svaraði Jón.

Gestur „fór óendanlega í taugarnar“ á Sigurði

Saksóknari fór svo að spyrja um ásakanir Jóns í fjölmiðlum og í vitnisburði sem hann hafði unnið fyrir Sigurð Einarsson. Þar segir hann meðal annars að hann hafi hlustað „eins og allir hinir lögreglumennirnir á samtal lögmanna og sakborninga,“ hjá embætti sérstaks saksóknara. Sagði hann þetta mjög sterka og afdráttarlausa lýsingu og spurði hvort hann gæti staðið við að „allir“ hefðu hlustað á slík símtöl. Jón sagði svo hafa verið og að hátalari hafi verið tekin fram til að hlusta á. Hann dró aftur á móti úr því að um alla saksóknara væri að ræða þegar saksóknari spurði hvort þeir hefðu einnig verið með í þessu. Aftur á móti hefðu þeir verið fleiri en tveir.

Nefndi hann sérstaklega Sigurð Tómas Magnússon sem starfsmann sem hefði staðið í þessum opnu spilunum, en hann hefur unnið sem ráðgjafi hjá embættinu. Sagði hann að Sigurður hafi verið að hlusta á símtöl milli Gests Jónssonar og skjólstæðings síns Sigurðar Einarssonar og Gestur „fór óendanlega í taugarnar á honum.“

„Freistingin alveg fáránleg“

Þegar verjandi Sigurðar spurði nánar út í þetta sagði Jón að Sigurður hafi verið saksóknari og oft tekist á við Gest sem hafi þótt „aggressívur“ verjandi. Sagði hann mikla freystingu vera þegar verjendur voru loksins að tala í síma sem var hleraður án þess að vita af því. „Freistingin alveg fáránleg,“ sagði Jón. Tók hann fram að starfsmenn hafi alla tíð vitað að ekki væri hægt að nota þessi gögn, en að þau hafi bent mönnum í ákveðnar áttir og að veiklegum manna. „Þetta nýttist því óbeint.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert