„Hef ekki stöðu til þess að snerta við þessu máli“

Ólöf segir ákvörðunina við að senda fólk úr landi aldrei …
Ólöf segir ákvörðunina við að senda fólk úr landi aldrei léttvæga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra segist skilja þær heitu tilfinningar sem almenningur hefur tjáð á samfélagsmiðlum vegna brottflutnings albanskra hælisleitenda í nótt. Í hópnum voru m.a. tveir langveikir drengir úr sitthvorri fjölskyldunni.

„Ég skil afskaplega vel þessar heitu tilfinningar og geri engar athugasemdir við það þótt fólk beini spjótum að mér. Á móti hlýt ég þó að biðja fólk um að skilja að ég get ekki gert það sem ég hef ekki heimild til að gera.“

Ólöf segir það verða að vera skýrt að hún taki ekki ákvarðanir um örlög hælisleitenda. Hún hafi ekki aðkomu að þeim og ekki innsýn í nákvæman rökstuðning bakvið hvert og eitt mál þar sem það þarf ekki að kynna þessar ákvarðanir fyrir ráðuneytinu. 

Ólöf segir það hafa verið ákveðið í mikilli samstöðu á Alþingi að færa úrskurðarvald í málefnum hælisleitenda frá ráðherra til úrskurðarnefndarinnar. Þar með séu hennar afskipti af þessu málefni engin. Hún segist þó skilja vel að hún sé andlit umræðu dagsins.

„Það breytir því ekki að ég hef ekki stöðu til þess að snerta við þessu máli.“

Þörf á að byggja upp traust

Ólöf segir að það sem hún geti gert sé að leggja til breytingar á lögum og minnist í því samhengi á frumvarp um útlendingamál sem þverpólitísk nefnd hafi nú lagt á hennar borð og bíður þess nú að vera lagt fram á Alþingi.

„Þá erum við að tala um grundvöll regluverksins,“ segir Ólöf.

Hún kveðst telja ástæðu til að byggja upp betra traust milli þeirra stjórnvalda sem taka ákvarðanir í þessum málum og almennings sem skilur þær ekki, verður hræddur og finnur til með fólkinu. Nauðsynlegt sé að útskýra betur þá vinnu sem fram fer og að framkvæmd ákvarðana sé þannig að enginn þurfi að ætla að gengið sé lengra en þörf er á hverju sinni.

„Þar get ég beitt mér, til að skýra betur hvernig þetta er gert o.s.frv. og það munum við fara yfir.“

Aðspurð segist Ólöf ekki telja stórvægilegar breytingar í fyrrnefndu frumvarpi sem komið hefðu getið fjölskyldunni með langveika barnið til góða.

Ekki léttvægar ákvarðanir

Ólöf segir einnig mikilvægt að hafa í huga að fjölskyldan hafi sjálf tekið þá ákvörðun að kæra ekki niðurstöðu Útlendingastofnunar um synjun.

„Æðra stjórnvald hefur því ekki tekið afstöðu í þessu máli gagnvart þessum börnum. Við sjáum það alltaf eftir því sem málum fjölgar að reglurnar eru slípaðar út frá hverju einstaka tilviki en það reyndi ekki á það þarna.“

Segir hún fólk þurfa að átta sig á því að ákvarðanir um að senda fjölskyldur úr landi með börnin sín séu þær erfiðustu sem hvert embætti tekur. Þær séu ekki teknar með léttvægum hætti.

 „Þegar umræðan fer að snúast um það að sumir hafi tilfinningar og aðrir ekki er dálítið þungt að svara slíku.“

Segir hún að þegar rætt sé um þessi mál fái almenningur gjarnan þá tilfinningu að hún og aðrir séu að tala fyrir hönd einhvers kerfis. Málið sé mun flóknara en svo og því fari fjarri að þeir sem halda utan um mál innan kerfisins hafi engar tilfinningar.

„Nokkuð þungt“ að fá atvinnuleyfi

Faðir annars langveika barnsins sem vísað var úr landi var kominn með fasta vinnu hér á landi. Til þess að hljóta leyfi til veru hér á landi á grundvelli atvinnu þarf hinsvegar að sækja um dvalaleyfi. Slíkt leyfi má ekki sækja um á meðan viðkomandi dvelst í landinu og því hefði albanski faðirinn þurft að finna sér vinnu á Íslandi og bíða svo þar til umsókn hans hefði verið samþykkt áður en hann loks kæmi til landsins.

„Stundum gæti maður kannski hugsað sér að sumir hefðu kannski alltaf átt að sækja um dvalarleyfi,“ segir Ólöf. Hún segir ekkert koma í veg fyrir að fólk óski eftir dvalarleyfi hér á landi frá sínum heimalöndum en viðurkennir að það geti reynst „nokkuð þungt“ að fá atvinnuleyfi, sem er eins og áður segir forsenda dvalarleyfis. Það snúi m.a. að almennri innflytjenda löggjöf, Vinnumálastofnun og stéttarfélögunum.

„Þar koma önnur sjónarmið inn sem geta líka verið svolítið þung að fara yfir. Þetta getur verið nokkuð margslungið,“ segir Ólöf sem segir umsóknir um dvöl á Íslandi koma í ýmsum stigum.

„Þarna erum við að tala um það hvort fólk uppfylli tiltekin skilyrði til að vera flóttamenn sem er nokkuð strangt ferli. Flóttamannahjálpin miðast að því að hjálpa þeim sem eru í lífshættu og af stríðshrjáðum svæðum. Það er það fólk þetta kerfi tekur við.“

Klea og Kevi Pepoj með minningarbækur sem þau fengu í …
Klea og Kevi Pepoj með minningarbækur sem þau fengu í íslenska leikskólanum sínum.
Hjónin Kast­rijot og Xhul­ia Pepoj sem synjað var um hæli.
Hjónin Kast­rijot og Xhul­ia Pepoj sem synjað var um hæli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert