Sá stærsti síðan mælingar hófust

Vísitala þorsks í stofnmælingu að hausti árið 2015 er sú hæsta síðan mælingar hófust árið 1996. Vísbendingar eru um að 2014-árgangur þorsks sé stór og sá stærsti síðan mælingar hófust árið 1996. Þetta er niðurstaða stofnmælingar botnfiska að haustlagi (haustrall) sem fór fram í 19. sinn dagana 7. október – 9. nóvember sl.

Rannsóknasvæðið var umhverfis Ísland allt niður á 1500 m dýpi. Alls var togað með botnvörpu á 374 stöðvum. Helsta markmið haustrallsins er að styrkja mat á stofnstærð helstu botnlægra nytjastofna á Íslandsmiðum með sérstakri áherslu á djúpkarfa, grálúðu og fleiri djúpsjávarfiska.

Auk þess er markmiðið að fá annað mat, óháð aflagögnum, á stofnstærð þeirra nytjastofna sem stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (vorrall) nær yfir og safna upplýsingum um útbreiðslu, líffræði og fæðu tegundanna. Til rannsóknarinnar var annars vegar notað rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson RE, og hins vegar leigður togarinn Jón Vídalín VE.

Flottar tölur um ýsuna líka

Svipað fékkst af öðrum tegundum í stofnmælingu að hausti árið 2015 og árið 2014 og eru vísitölur sumra tegunda þær hæstu frá upphafi rannsóknanna. Vísbendingar eru um að 2014- og 2015-árgangar ýsu séu yfir meðalstærð eftir langvarandi lélega nýliðun. 

Heildarvísitala þorsks hefur farið hratt vaxandi síðastliðin 8 ár. Hún er nú tvöfalt hærri en árin 2008-2009. Hækkunina má rekja til aukins magns af stórum þorski síðastliðin ár en einnig aukins magns af 40-60 cm þorski í mælingunni í ár. Í ár er vísitala allra lengdarflokka yfir meðaltali tímabilsins.
Mæling á magni ársgamals þorsks (árgangur 2014) í stofnmælingunni í mars benti til þess að árgangurinn væri sterkur og er það staðfest í haustrallinu. Mældist árgangurinn sá sterkasti frá því að mælingar hófust árið 1996.

Vísitölur þriggja til sex ára þorsks, árganganna frá 2009-2012, mældust einnig háar, en vísitala tveggja ára fisks, þ.e. árgangsins frá 2013, mældist lág líkt og í stofnmælingunni árið 2014 og í stofnmælingunni í mars árið 2015.

Fyrstu vísbendingar um árganginn frá 2015 gefa til kynna að hann sé um meðalstærð, en það mun skýrast betur að ári.
Meðalþyngdir fimm ára og eldri þorsks eru nú yfir meðaltali áranna 1996-2015, en um eða undir meðaltali hjá þriggja og fjögurra ára fiski.

Mest fékkst af þorski djúpt norðvestur, norður og austur af landinu og á Þórsbanka suðaustan við land líkt og undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert