Verða viðstaddir dráttinn í París

Bragi Hinrik og Þór Bæring eru staddir í París.
Bragi Hinrik og Þór Bæring eru staddir í París. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Þór Bæring Ólafsson og Bragi Hinrik Magnússon, tveir af eigendum ferðaskrifstofunnar Gamanferða, eru komnir út til Parísar til að vera viðstaddir dráttinn í riðlakeppni EM í knattspyrnu á morgun. Lúðvík Arnarson, framkvæmdastjóri Vita Sport, verður einnig viðstaddur.

„Þetta leggst ótrúlega vel í mig. Maður er bæði kvíðinn og spenntur,“ segir Þór Bæring, sem ætlar einnig að lýsa drættinum, sem hefst klukkan 17, beint á Skjá einum. „Á sunnudaginn verður hálfgerður skiptibókamarkaður með hótelherbergi, þar sem menn hittast frá mismunandi löndum og skiptast á.“

Lokakeppnin hefst þann 10. júní og lýkur með úrslitaleik 10. júlí. Leikirnir fara fram á tíu stöðum: Bordeaux, Lens, Lille, Lyon, Marseille, Nice, París, Saint Étienne, Toulouse og á Stade de France.

Fjórir EM-pakkar í boði

Fjórir EM-pakkar fara  í sölu hjá Gamanferðum á mánudaginn. Sá ódýrasti, þar sem farið verður á einn leik, mun líklega kosta á bilinu 120 til 180 þúsund krónur. Yfir 200 manns hafa þegar greitt 30 þúsund króna staðfestingargjald.

Miðasalan á leikina hefst 14. desember og stendur hún yfir til 18. janúar. Miðarnir verða eingöngu til sölu á vefsíðunni www.euro2016.com og þar gildir ekki reglan „fyrstur kemur fyrstur fær“, heldur mun UEFA tilkynna umsækjendum í febrúar hvort þeir fá miða eða ekki.

Að sögn Þórs fá þeir sem hafa keypt sér pakka hjá Gamanferðum endurgreitt ef þeir fá ekki miða á þann leik sem þeir ætluðu að sjá.  Honum finnst líklegt að allir muni fá miða. „Miðað við það sem KSÍ segir að hver þjóð fái 20 prósent af miðunum sem eru í boði á hverjum velli þá finnst mér það líklegt.“

Fjögurra til sex vikna undirbúningur

Lúðvík Arnarson hjá Vita Sport mun einnig hafa í nógu að snúast í París. „Ég er að fara á fundi með birgjum og kollegum, sem ég hyggst vinna þetta með að einhverju leyti. Það þarf að fara yfir ýmis atriði. Við hjá Vita Sport höfum verið að undirbúa þetta undanfarnar fjórar til sex vikur. Um leið og niðurstaða liggur fyrir verða menn fljótir að vinna úr þessu,“ segir Lúðvík.

„Fjölmargir hafa verið í sambandi við okkur og við ætlum að vera tilbúin með pakkana okkar fljótlega."

Horft yfir Parísarborg frá Tour Montparnasse.
Horft yfir Parísarborg frá Tour Montparnasse. mbl.is/Ómar Óskarsson
Lúðvík Arnarson hjá Vita Sport.
Lúðvík Arnarson hjá Vita Sport. Mynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert