Fáar leiðir færar inn í landið

Klea og yngri bróðir henn­ar Kevi sem er með slíms­eigju­sjúk­dóm. …
Klea og yngri bróðir henn­ar Kevi sem er með slíms­eigju­sjúk­dóm. Þau komu hingað til lands ásamt foreldrum sínum. Fjölskyldan sótti um hæli en var synjað og er nú farin úr landi. Ljósmynd/DV

Albanar eru um þriðjungur umsækjenda um hæli hér á landi. Í Albaníu er ekki stríð en þeir Albanar sem hingað leita eru oft taldir vera í raunverulegri hættu í heimalandinu. Þótt Albanar geti ferðast hingað frjálst og fengið vinnu hér á landi þá er engin leið fær til að haldast í landinu nema sækja um hæli. Dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku eru einfaldlega ekki veitt fólki utan EES nema að mjög þröngum skilyrðum uppfylltum.

Málefni albanskra hælisleitenda hafa ratað í fréttir undanfarna daga. 27 einstaklingum, frá Albaníu og Makedóníu, var vísað úr landi í vikunni og út frá þeirri aðgerð hafa ýmsar spurningar vaknað.

Í hópnum voru fjölskyldur með alvarlega veik börn en þrátt fyrir að sýnt væri að þau fengju ekki sömu læknisþjónustu í heimalandinu og þau gætu fengið hér á landi virðist það ekki duga til að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þótt skýrt sé tekið fram í útlendingalögum að taka eigi tillit til þess ef um barn er að ræða voru veikindi barnanna ekki talin ástæða fyrir að veita fjölskyldunum dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

„Það er ekkert almennt dvalarleyfi í lögunum sem veitir fólki rétt til að vera hér þegar það er komið með vinnu. Það eru í raun ekki margar leiðir færar aðrar en að sækja um hæli,“ segir Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur og réttargæslumaður hjá Rauða krossinum.

Um eitt hundrað Albanar hafa sótt um hæli hér á landi á þessu ári, sem er um þriðjungur hælisumsókna sem berast Útlendingastofnun.

„Við höfum áhyggjur af því að Albanar séu allir settir undir sama hatt. Í umræðunni er gjarnan verið að bera aðstæður þeirra saman við Sýrland, sem er skiljanlegt að vissu leyti, en það má ekki verða til þess að horft sé framhjá því þegar fólk er raunverulega í hættu,“ segir Arndís og bendir á að þótt lögregla og dómskerfi sé til staðar sé gríðarleg spilling í landinu og því hafi fólkið sem nú hefur verið sent til baka ekki neina tryggingu fyrir því að geta notið verndar lögreglu þar í landi.

Arndís áréttar að fjölskyldurnar sem fjallað hefur verið um hafi farið hárrétta leið með mál sín. Telji fólk sig í hættu í sínu heimalandi þá sæki það um hæli sem flóttamenn og þá komi líka til skoðunar dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sem getur m.a. verið af heilbrigðisástæðum.

Atvinnuleyfi nær útilokað

Albanar geta ferðast frjálst hingað til lands þannig að þeir hælisleitendur sem hingað leita eru almennt hér á löglegum skilríkjum.

Fjölskyldufaðir sem fjallað hefur verið um hafði þegar trygga atvinnu hér á landi hafði samt enga möguleika á að fá atvinnuleyfi.

Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort ekki hefði verið hægt að fá atvinnu á grundvelli skorts á vinnuafli, því eins og vinnuveitandi hans benti á í fjölmiðlum þá hefur hann vantað starfsfólk og vildi gjarnan halda í þennan tiltekna starfskraft.

Þessi leið var þó ófær líka þar sem slíkt leyfi, jafnvel þótt það fengist, veitir starfsmanni sem hingað kemur frá löndum utan EES ekki heimild til að hafa fjölskyldu sína með. Dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku er ekki veitt fólki utan EES nema að mjög þröngum skilyrðum uppfylltum.

Það sem af er árinu 2015 hefur Vinnumálastofnun synjað 30 umsóknum um atvinnuleyfi fyrir einstaklinga utan EES sem sótt var um á þeim grundvelli að vinnuafl skorti. Nær ómögulegt er að fá þessa undanþágu fyrir starfsmenn verktaka í byggingariðnaði, en ekkert atvinnuleyfi á grundvelli skorts á vinnuafli hefur verið veitt vegna starfsmanna í byggingariðnaði frá hruni.

Fyrir einstaklinga frá löndum utan EES eru möguleikar á að komast hér í vinnu og fá að dvelja í landinu einfaldlega mjög takmarkaðir.

Það sem af er þessu ári hefur Vinnumálastofnun veitt 1.124 einstaklingum utan EES atvinnuleyfi, þar af er langstærstur hluti eða 1.064 tímabundin leyfi. Í flestum tilvikum er um að ræða árstíðabundin störf líkt og störf í ferðaþjónustu, slátrun og fleira. Þeir sem eru ekki með tímabundin leyfi eru yfirleitt með tiltekna menntun og fá leyfi á þeim grunvelli. Allt er þetta á forsendum vinnumarkaðarins hér, en ekki sérstaklega hugsað fyrir einstaklinga eins og t.d. albanska flóttamanninn sem var þegar kominn með vinnu hér á landi. Hann passar í raun hvergi inn í nein leyfi.

Vilji íslenskur atvinnurekandi fá albanskan verkamann í vinnu þarf hann fyrst að sýna fram á að enginn í allri Evrópu finnist til starfans. Þá fyrst á viðkomandi möguleika á að fá hér vinnu, en þau leyfi eru aðeins veitt í takmarkaðan tíma og viðkomandi á aldrei möguleika á að vera áfram í landinu í meira en tvö ár. Að þeim loknum þarf hann að yfirgefa landið í tvö ár áður en hann getur átt kost á að sækja um að nýju. Möguleikar fólks frá löndum utan EES, eins og Albaníu, á að koma hingað yfirhöfuð og fá atvinnuleyfi eru því afar litlir nema því sé veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Til að dvalarleyfi á þeim forsendum sé tekið til skoðunar þarf umsækjandi að hafa sótt um hæli og fengið synjun. Sé hvorki veitt hæli né dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er viðkomandi vísað úr landi, jafnvel þótt fólk vilji lifa hér og starfa – fjarri hættum og hótunum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert