Ævintýralegur fjársvikaferill

Það er óhætt að segja að maðurinn hafi gaman af …
Það er óhætt að segja að maðurinn hafi gaman af því að ferðast. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir Eista sem er grunaður um að hafa svikið út farmiða og fjölmörg önnur brot frá því hann kom til landsins í lok júlí. Maðurinn fékk fjögurra mánaða dóm 2007 hér á landi fyrir svipuð brot og fékk þá viðurnefnið „ferðasjúki barþjóninn“ hjá einhverjum fjölmiðlum enda fólust brot hans í því að nota kortanúmer sem hann stal af gestum á bar sem hann starfaði á í London til þess að kaupa flugfarmiða.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 7. janúar að þessu sinni líkt og lögreglan á Suðurnesjum óskaði eftir.

Sat í gæsluvarðhaldi en tók upp fyrri iðju í farbanni

Maðurinn var handtekinn 27. júlí sl. grunaður um að hafa svikið út farmiða þann sem hann ferðaðist á með því að gefa upp, í blekkingarskyni og án heimildar, greiðslukortanúmer annars manns. Þá hafi við leit í farangri hans fundist fjöldi muna sem lögregla ætli að séu honum óviðkomandi, svo sem greiðslukort, óútfyllt brottfararspjöld frá mismunandi flugfélögum, merkimiðar ætlaðir áhöfnum mismunandi flugfélaga, óútfylltir úttektarmiðar fyrir hótel o.fl. Ákæra hafi verið gefin út vegna ætlaðra fjársvika við greiðslu flugbókana frá 26. júlí 2015, samtals að andvirði 327.450 krónur og hún í dómsmeðferð.

Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi frá því í lok júlí  vegna málsins til 26. ágúst sl. er honum hafi með úrskurði héraðsdóms verið gert að sæta farbanni. En í lok október hófst rannsókn á honum að nýju, bæði fyrir áþekk brot og hann framdi í sumar og hins vegar auðgunarbrot sem tengist verðmætum munum sem fundist hafi í híbýlum hans.

Samkvæmt gögnum málsins hafi á tímabilinu 26.-29. október 2015 verið gerðar fimm mismunandi bókanir í flug með flugfélögum hingað til lands á nafni móður hans. Við greiðslu á öllum bókunum hafi verið gerðar samtals 28 tilraunir til að greiða með nítján greiðslukortanúmerum manna víða um heim. Farmiðar í hverri flugbókun hafi verið að verðmæti 117.000 krónur til 146.000 krónur og á þeirri forsendu megi áætla andlag meintra brota yfir 600.000 krónur, hefðu greiðslur gengið í gegn.

Allar þessar bókanir hafi verið gerðar af manni sem tengst hafi þráðlausu neti gistiheimilisins sem maðurinn dvaldist á meðan hann var í farbanni. Í ljós kom við rannsókn málsins að maðurinn hafði fengið vinnu á gistiheimilinu. 

Fundu fjölmörg handskrifuð kortanúmer gesta á gistiheimilinu

Í kjölfar þess að framangreindar bókanir gengu ekki í gegn er upplýst að maðurinn fór á söluskrifstofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og greiddi fyrir farmiða á nafni móður sinnar, sem hann hafði áður bókað símleiðis, í reiðufé. 

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að upplýsingar um að minnsta kosti tvo gesti á gistiheimilinu höfðu verið notaðar við bókanir á flugmiðum. Þegar leitað var í vistaverum mannsins og mömmu hans, sem var komin til landsins, fundust fjölmörg handskrifuð kortanúmer, þar á meðal úr bókunum gesta á gistiheimilinu, og hins vegar mikið magn af dýrum útivistarfatnaði, augsýnilega úr hérlendum verslunum. Andvirði þeirra muna nemi um einni milljón króna. 

Að sögn lögreglu kom maðurinn með fleiri en eina útgáfu af skýringum á færslunum við yfirheyrslur. Hann hafi gengist við því að hafa reynt að bóka farmiða símleiðis og gefið þær skýringar að nauðsynlegt hefði verið að gefa upp greiðslukortanúmer annarra manna til að geta fengið upp gefið númer flugbókunar sem hann hafi ætlað að staðgreiða í framhaldinu, svo sem hann hafi og gert.

Eins sagði hann að það væri mögulegt að hann hafi fundið handskrifað blað með kortanúmerum á gistiheimili því sem hann hafi starfað á sem sjálfboðaliði sem næturvörður.

Vegna þeirra muna sem hafi fundist á gistiheimilinu hefur hann iðulega neitað að svara. Ef hann hafi hann sem fyrr gefið fjarstæðukenndar skýringar.

Sakaskráin löng

Lögreglan bendir á að maðurinn eigi sér mjög langa sögu fjársvika erlendis. Gerð sé grein fyrir brotaferli hans í gögnum málsins og komi þar fram að hann hafi á árunum 2004 til 2014 margítrekað hlotið dóma fyrir auðgunarbrot, suma hverja þunga t.a.m. hér á landi þegar hann hafi verið sakfelldur fyrir fjársvik með dómi Héraðsdóms Reykjaness, 17. ágúst 2007 fyrir að hafa í níu skipti á tímabilinu frá mars 2007 til ágúst sama ár svikið út farmiða, samtals að andvirði 802.000 krónur.

Fangelsi fyrir að svíkja út farmiða

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert