Skekkt mynd af leigumarkaði

Leigjendum fjölgaði mikið í kjölfar hrunsins ásamt því sem íbúðaskortur …
Leigjendum fjölgaði mikið í kjölfar hrunsins ásamt því sem íbúðaskortur og hátt verð virðast einkenna stöðuna, að því er segir í skýrslu hagdeildar ASÍ. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mikill munur er á verði leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu sem kemur fram í auglýsingum og því sem kemur fram á þinglýstum leigusamningum, samkvæmt könnun hagdeildar ASÍ. Í sumum tilfellum var auglýst verð hátt í þriðjungi hærra. Í skýrslu ASÍ segir að skökk mynd af stöðu á leigumarkaði hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Hagdeildin bendir á í skýrslu sinni að opinberar tölur og þinglýstir samningar gefi ekki endilega raunhæfa mynd af leigumarkaðnum. Þegar vísitölur leiguverðs, íbúðaverðs og launa síðastliðins árs séu bornar saman komi í ljós að leiguverðsvísitalan hafi hækkað minnst. Því virðist staðan á markaðinum alls ekki slæm þegar aðeins sé litið til verðs.

Vísitalan byggir hins vegar á verði samkvæmt þinglýstum leigusamningum. Þegar hagdeildin fór yfir allar auglýsingar um leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu kom í ljós mun hærra verð en þinglýstu samningarnir gefa til kynna. Í öllum tilfellum var um 20-30% hærra verð að ræða.

„Þetta gerir það að verkum að við fáum alla jafna skekkta mynd af stöðu mála á leigumarkaðnum sem hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér. Erfitt er fyrir bæði einstaklinga og opinbera aðila að taka upplýstar ákvarðanir þegar ástandið er jafn óljóst og raun ber vitni og upplýsingaöflun erfið,“ segir í skýrslunni.

Verulega íþyngjandi fyrir námsmenn

Einnig kom í ljós við könnun ASÍ að hlutfall ráðstöfunartekna sem fer í leigu sé mun hærra en æskilegt þykir. Alls eyðir fólk á almennum leigumarkaði á bilinu 30-70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigugreiðslur. Æskilegt þyki hins vegar að þetta hlutfall sé ekki yfir 20-25%.

Hlutskipti námsmanna á leigumarkaði var skoðað sérstaklega. ASÍ telur hag þeirra sem komast inn á stúdentagarða ágætan. Þar verji námsmenn um 20-30% af ráðstöfunartekjum í leigu. Þeir sem þurfi að vera á almennum markaði, sem ætla megi að stór hópur neyðist til að gera, þurfi hins vegar að verja 40-60% af ráðstöfunartekjum í leigu. Það geti ekki talist annað en verulega íþyngjandi.

Hærri húsaleigubætur gætu hækkað leiguverð

Niðurstaða skýrslunnar er meðal annars að mikill vandi blasi við húsnæðismarkaðnum og sér í lagi leigumarkaðnum þessa stundina. Eftirspurn eftir húsnæði á viðráðanlegum kjörum sé mikil. Framboðið hins vegar af skornum skammti og það stjórnist af ýmsum þáttum. Til að mynda sjá margir leigusalar frekar hag sinn í því að bjóða íbúð sína til skamms tíma ferðamönnum í stað þess að bjóða á almennum leigumarkaði. Þetta verði til þess að framboð skerðist til almennings og leiguverð hækkar.

Einnig hafi lítið verið byggt af nýjum íbúðum. Raddir heyrist um að það sé sökum þess að núverandi byggingareglugerð geri það að verkum að kostnaður við nýbyggingar sé óþarflega hár.

„Menn eru ef til vill tregir að fara af stað í framkvæmdir ef byggingareglugerð gæti breyst og gert það að verkum að framkvæmdir verða ódýrari í náinni framtíð. Það umlykur því mikil óvissa ástandið eins og það er núna og er breytinga þörf til þess að framboð húsnæðis geti í það minnsta aukist,“ segir í skýrslunni.

Mögulegar úrbætur sem ríkisstjórnin hafi boðað verða vonandi til þess að ástandið batni, að mati ASÍ. Hækka eigi húsaleigubætur en það gæti þó haft þær afleiðingar í för með sér að markaðsöflin líti á það sem svo að greiðslugeta leigjenda hafi aukist sem leiði til þess að svigrúm myndist til þess að hækka leigu, að öðru óbreyttu. Eftirfylgni af leigumarkaðinum og þróun leiguverðs þurfi því að vera mikil og mun áreiðanlegri en hún er nú ásamt því sem fjölga þurfi búsetuúrræðum.

Frétt um skýrsluna á vef ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert