Atkvæðagreiðsla stendur enn yfir

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn

Alþingi felldi rétt í þessu tillögu minnihlutans um að auka fjárframlög til Landspítala í fjárlögum 2015. Atkvæðagreiðsla um hinar ýmsu breytingartillögur stendur enn yfir og hefur gengið þannig að tillögur minnihlutans hafa verið felldar en þingmenn minnihlutans í flestum tilfellum setið hjá við atkvæðagreiðslu um tillögur meirihlutans.

Þingmenn hafa verið duglegir við að stíga í pontu og gera grein fyrir atkvæðum sínum og hefur oft á tíðum verið heitt í hamsi. Þingmenn minnihlutans hafa m.a. verið sakaðir um popúlisma, en þeir hafa aftur gagnrýnt harðlega að Landspítalanum skuli ekki vera tryggt aukið rekstrarfé í ljósi ástandsins á spítalanum, sem endurspeglist m.a. í myglu og leka í byggingum sjúkrahússins.

Lýsa má umræðunni um fjárveitingar í heilbrigðiskerfinu með því að segja að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og þingmenn stjórnarandstöðunnar séu fullkomlega ósammála um hvort verið sé að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins eður ei.

Uppfært kl. 23.05:

Rétt í þessu upphófst nokkur kurr á þingi þegar Ögmundur Jónasson lýsti yfir ánægju með að 3. umræða um fjárlög væri enn eftir. Bað þá forseti þingsins menn um að gefa þingmönnum í pontu hljóð, en í það minnsta hætta frammíköllum þegar þingmenn hefðu lokið ræðu sinni.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir steig í pontu á eftir Ögmundi og skoraði á stjórnarmeirihlutann að sýna manndóm og viðurkenna að hann vildi einkavæða heilbrigðiskerfið. Hófust þá aftur frammíköll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert