Gagnrýndi „veiðiferðir“ ríkisins

Reimar Pétursson á fundinum í morgun.
Reimar Pétursson á fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður, gagnrýndi svokallaðar veiðiferðir stjórnvalda á fundi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins á Grand Hótel Reykjavík í morgun um réttarstöðu fyrirtækja við rannsókn mála.

Með veiðiferðum átti hann við allsherjar rannsóknir stjórnvalda á stórum fyrirtækjum þar sem gögn eru hreinsuð út og þau rannsökuð í þaula. Sagði hann nánast óhjákvæmilegt að einhver afrakstur yrði úr slíkri ferð.

Líkist togaraveiðum

„Ef rannsókn leiddi ekki í ljós vísbendingar um brot gegn gjaldeyrislögum væri hægt að leita vísbendinga um brot gegn lögum, um verðbréfaviðskipti eða á samkeppnislögum. Ef um allt þryti væri hægt að leita eftir brotum á skattalögum. Verulegar líkur eru á því að brot fyndist á endanum hjá stórfyrirtæki sem sætti meðferð sem þessari,“  sagði Reimar. „Þessu má líkja við togaraveiðar þar sem rennt er yfir miðin með sífellt smærri möskvum þangað til eitthvað kemur í trollið.“

Brotin hljóta að vera smávægileg

Reimar nefndi í kjölfarið fjórar ástæður fyrir því að slíkar veiðiferðir séu skaðlegar.„Flest brot sem finnast með handahófskenndum veiðiferðum hljóta að vera smávægileg. Kostnaður við slíkar veiðirferðir fyrir stjórnvöld og fyrirtæki er því óhóflegur, samanborið við gagnsemi þeirra til að upplýsa brotastarfsemi,“ sagði hann og bætti við að í öðru lagi séu brotin byggð á sífellt breytilegum og matskenndum lagasetningum. „Veiðiferðir til að upplýsa um og refsa fyrir þessi brot fækkar þeim því ekki endilega. Stöðugri og skýrari löggjöf getur fækkað þeim.“

Grafa undan friðhelgi einkalífs

Í þriðja lagi grafa veiðiferðirnar undan friðhelgi einkalífs, að mati Reimars. Stór fyrirtæki hafi í vörslu sinni oft á tíðum viðkvæmar upplýsingar um einkalíf fólksins í landinu. „Bankar geyma upplýsingar um fjármál okkar, vátryggingafélög geyma upplýsingar um heilsufar okkar, fjarskiptafélög geyma upplýsingar um fjarskipti okkar og svo mætti lengi telja,“ sagði hann. „Veiðiferðir ríkisins gagnvart fyrirtækjum fela því  í sér að hópur manna yfirfer sífellt persónulegar upplýsingar um einkalíf fólksins í landinu og þær eru geymdar á fleiri stöðum en þyrfti ella.“

Forsendan að allir séu sekir

„Í fjórða lagi grafa veiðiferðir undan réttlátri málsmeðferð. Hluti hennar er vernd fyrir gerræðislegum ákvörðunum um hvert rannsókn skuli beinast. Enginn einstaklingur á að þurfa að sæta því að rannsókn sé hafin á honum á grundvelli þeirrar forsendu að allir séu sekir. Það sama gildir um einstakling sem stundar atvinnurekstur og það sama ætti að gilda um félag í eigu einstaklinga sem stunda atvinnurekstur,“ bætti hann við.

Að lokum velti Reimar upp spurningunni hvort fyrirtæki njóti verndar gegn veiðiferðum samkvæmt lögum. Svaraði hann því bæði játandi og neitandi og hvatti fyrirtæki til að láta reyna á rétt sinn ef þeim fyndist eitthvað ólíðandi í rannsókn yfirvalda á meintum brotum þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert