Mikið af lélegum þingmönnum

Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri.
Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri. Rax / Ragnar Axelsson

Obbinn af þingmönnum hefur gengið svipaða leið og hópurinn er ekki sérstaklega fjölbreyttur, að mati Páls Magnússonar, fv. útvarpsstjóra. Hann telur þingheim samsvara samfélaginu verr en áður var og að mikið sé af lélegum þingmönnum á þingi.

Páll var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun ásamt Ingva Hrafni Jónssyni. Þeir voru fengnir í þáttinn sem gamlir þingfréttaritarar til þess að ræða þingið sem fór jólafrí í gær.

Fyrrverandi útvarpsstjóri vandaði þingmönnum ekki kveðjunnar og sagði mikið af lélegum þingmönnum á þingi um þessar mundir. Hann vildi ekki alhæfa og margir góðir þingmenn væru þar einnig en svo virtist sem að stjórnmálaflokkunum hefði ekki tekist að laða að sér hæfileikaríkt fólk.

Hópur þingmanna væri einsleitur. Þeir Ingvi Hrafn voru sammála um að áður hafi þingmenn haft fjölbreyttari bakgrunn. Þá hafi verið alls konar fólk á þingi; sjómenn, bændur og verkalýðsleiðtogar. Nú séu þingmenn hins vegar með óskaplega viðlíka reynslu.

„Obbinn af þingmönnum hefur gengið mjög svipaða leið,“ sagði Páll sem telur þingheim samsvara samfélaginu verr en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert