Fjártjónshætta var veruleg

Lár­us Weld­ing, Jó­hann­es Bald­urs­son og Þor­valdur Lúðvík Sig­ur­jóns­son voru fundnir …
Lár­us Weld­ing, Jó­hann­es Bald­urs­son og Þor­valdur Lúðvík Sig­ur­jóns­son voru fundnir sekir. mbl

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, í fimm ára fangelsi fyrir umboðssvik í hinu svonefnda Stím-máli. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Lárus hefði farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga hjá Glitni banka þegar hann beitti sér fyrir því að félagið FS 37, sem síðar varð Stím, fengi um 20 milljarða króna lán.

Lárus hafði áður verið sýknaður í tveimur málum, þ.e. í Vafningsmálinu og Aurum-málinu. Jó­hann­es Bald­urs­son, sem var fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta Glitn­is, var einnig dæmd­ur í 2 ára fang­elsi í sama mál­i sem og Þor­vald­ur Lúðvík Sig­ur­jóns­son, fyrr­ver­andi banka­stjóri Saga Capital, sem fékk 18 mánaða fang­elsi.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í dag kemur fram að Lárus hafi 16. nóvember 2007 sem forstjóri og formaður áhættunefndar Glitnis banka misnotað stöðu sína með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og stefna fjármunum bankans í verulega hættu þegar hann lét bankann veita FS 37 ehf. rúmlega 19,5 milljarða króna án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur stjórnar bankans og lánareglur bankans. En lánið rúmaðist ekki innan viðskiptamarka sem áhættunefnd og ákærði gátu ákveðið.

Lárus undirritaði fyrir hönd Glitnis banka lánssamning við FS 37 ehf. þar sem bankinn veitti félaginu fyrrnefnt 19.538.481.818 króna lán. „Lánið var til eins árs og veitt í þeim tilgangi að fjármagna um 78% af kaupverði FS 37 ehf. á um 4,3% hlut í Glitni banka hf. og um 4,1% hlut í FL Group hf. Hlutabréfin keypti félagið af Glitni banka hf. sjálfum með kaupsamningi dagsettum 14. nóvember 2007, alls 640.000.000 hluti í Glitni banka hf. á 25,5 krónur á hvern hlut, og 380.000.000 hluti í FL Group hf. á 22,05 krónur á hvern hlut. Hlutabréfaviðskiptin námu alls 25.038.481.818 krónum. Viðskiptadagur var 13. nóvember 2007 og uppgjörsdagur 16. nóvember 2007. Af láni Glitnis banka hf. til FS 37 ehf. var 19.343.097.000 krónum ráðstafað, 19. nóvember 2007, upp í greiðslu fyrir hlutina inn á reikning FS 37 ehf. hjá Glitni banka hf,“ segir í dómnum.

Til tryggingar láni Glitnis til FS 37 voru bankanum sett að veði hlutabréfin í FL Group og allt hlutafé FS 37, en í dómi héraðsdóms segir að eiginlegar tryggingar fyrir lánveitingunni hafi verið ófullnægjandi og fjártjónshætta veruleg. Þá var lánið sem fyrr segir í andstöðu við lánareglur bankans og stjórnar hans þar sem lánið rúmaðist ekki innan viðskiptamarka.

Í dómsorði kemur fram að Lárus sæti fangelsi í 5 ár en til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald hans frá 30. nóvember 2011 til 7. desember sama ár. Þá er honum einnig gert að greiða lögmanni sínum tæpar 15 milljónir króna og útlagðan kostnað verjandans að fjárhæð um 1,7 milljónir króna.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í heild sinni.

Lárus Welding, fyrrum bankastjóri Glitnis.
Lárus Welding, fyrrum bankastjóri Glitnis. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert