Björn og Karl þurfa að borga

Björn Þorri hefur látið til sín taka í gengislánamálunum.
Björn Þorri hefur látið til sín taka í gengislánamálunum. mbl.is/Ernir

Hæstaréttarlögmennirnir Björn Þorri Viktorsson og Karl Georg Sigurbjörnsson þurfa að greiða Arion banka 20.707.202 krónur vegna láns sem þeir tóku hjá Sparisjóði Mýrarsýslu árið 2005. Þetta kemur fram í dómi héraðsdóms Vesturlands, sem birtur var í gær, í máli sem bankinn rak á hendur lögmönnunum. Björn Þorri hefur verið áberandi í umræðu um gengislán í kjölfar efnahagshrunsins og sótti m.a. mál sem vannst fyrir Hæstarétti árið 2010, þar sem myntkörfulán voru dæmd ólögmæt.

Frétt mbl.is: Búum í réttarríki

Upprunalega hljóðaði lán þeirra Björns og Karls upp á 17,6 milljónir króna og var tekið í svissneskum frönkum. Í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti slíkra gengistryggðra lána var það endurútreiknað og í útreikningnum miðað við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands. Björn og Karl byggðu varakröfu sína um lækkun skuldarinnar m.a. á því að við þennan endurútreikning hefði bankanum ekki verið heimilt að krefja þá um vexti og lántökukostnað þar sem lánssamningurinn hefði ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Væru ýmis ákvæði lánasamningsins því ósanngjörn á grundvelli 36.gr. samningalaga og bæri að vísa þeim frá.

Þessari málsástæðu var hins vegar hafnað þar sem dómurinn taldi að bankinn hefði farið að kröfum lögmannanna þegar vextir voru endurútreiknaðir og þar höfð hliðsjón af nýjum fordæmum Hæstaréttar. Hefði því engu breytt þó þær upplýsingar sem lögin kveða á um hefðu komið fram í lánasamningnum.

Arion banki tók við kröfunni eftir uppstokkun í bankakerfinu í …
Arion banki tók við kröfunni eftir uppstokkun í bankakerfinu í kjölfar efnahagshrunsins. mbl.is/Júlíus

Óvart gefin út kvittun

Þeir byggðu aðalkröfu sína um sýknu hins vegar á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi vísuðu þeir til þess að Björn hefði fengið senda til sín greiðslukvittun frá Sparisjóðnum þann 10. nóvember 2008 og hefði þannig verið ljóst að lánið teldist greitt að fullu að mati bankans. Dómurinn féllst ekki á þessa málsástæðu og þótti sannað að kvittunin hefði verið send vegna mistaka starfsmanna bankans, enda bersýnilega ekki næg innistæða fyrir greiðslu á þeim reikningi sem vísað var til á kvittuninni. Taldi dómurinn að Birni hefði mátt vera þetta ljóst.

Jafnframt vísuðu þeir til þess að krafan væri fallin niður vegna tómlætis, enda hefði liðið langur tími frá frávísun fyrra máls þar til málið sem í var dæmt í gær var höfðað. Þannig var fyrra máli bankans gegn þeim vísað frá dómi árið 2011, þar sem útreikningur kröfunnar hafði breyst svo gríðarlega í kjölfar gengislánadómanna að hann þótti í raun hafa fallið frá öllum málsástæðum hvað það varðaði. Aftur á móti var ekki fallist á þessa málsástæðu, enda hefðu skuld þeirra ítrekað verið endurreiknuð með tilliti til fordæma í dómum sem féllu árið 2012. Þá hafnaði dómurinn því einnig að sú óvissa sem ríkti á tímabili um hvort lánið hefði að geyma ólögmæta gengistryggingu ætti að hafa áhrif á stöðu mála.

Björn og Karl voru því dæmdir til að greiða kröfuna óskipt að fullu ásamt dráttarvöxtum, og málskostnað upp á 600 þúsund krónur. Björn Þorri sagði þá Karl ekki hafa tekið ákvörðun um mögulega áfrýjun dómsins til Hæstaréttar þegar mbl.is náði af honum tali.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert