Einmanalegt um jólin

Þórunn Sóley Kjartansdóttir og Gunnar Jón Sigurjónsson verða á vakt …
Þórunn Sóley Kjartansdóttir og Gunnar Jón Sigurjónsson verða á vakt um jól og áramót. mbl.is/Styrmir Kári

Flestir vilja og eiga frí í vinnunni um jólin en Þórunn Sólveig Kjartansdóttir og Gunnar Jón Sigurjónsson skipta kvöldvaktinni í gjaldskýli Hvalfjarðarganga á milli sín í kvöld, eru svo saman á morgunvakt á morgun og annan í jólum. Þórunn verður síðan á kvöldvakt á gamlársdag og nýársdag og Gunnar tekur næturvaktina á nýársnótt.

„Þetta er alvanalegt og maður venst þessu,“ segir Þórunn, sem hefur unnið hjá Speli í 17 ár eða nánast frá opnun ganganna. Gunnar, sem er með um 13 ára starfsreynslu í skýlinu, tekur í sama streng. „Ég hef unnið önnur hver jól,“ segir hann og bætir við að hann þekki þetta vel því hann hafi líka verið vaktmaður í 23 ár hjá Járnblendifélaginu. „Áður var ég á sjó, meðal annars stýrimaður í 15 ár, og þá vorum við alltaf í landi á jólum.“

Kveikir á kerti og messunni

Þórunn segir að vissulega væri eftirsóknarverðara að eiga frí með fjölskyldunni um jólin en ekki sé á allt kosið í vaktavinnu. „Vaktarúllan er ekkert tekin úr sambandi um jólin, en það eru kostir og gallar við þetta eins og annað.“ Hún áréttar að þau verði að sinna sinni vakt, hvort sem hún falli á rauðan dag eða ekki.

Þegar jólin ganga í garð eru fáir á ferðinni en þau segja að umferðin aukist þegar líða taki á aðfangadagskvöld. „Ég kveiki á útvarpinu og á kerti og hlusta á messuna klukkan sex,“ segir Þórunn og bætir við að þá sé vissulega einmanalegt í skýlinu. „Gunnar kemur klukkan átta og þá fer ég heim í jólamatinn.“ Hún bendir á að þó að þau skipti vaktinni í kvöld á milli sín séu þau samt á bakvakt og tilbúin að mæta komi eitthvað fyrir í göngunum.

Gunnar segir að óneitanlega sé hátíðlegra að vinna á aðfangadag en aðra daga. „Þegar maður er einn í skýlinu hugsar maður meira heim á jólum,“ segir hann. „Það er einmanalegt að vinna einn um jól og áramót,“ áréttar hann.

Gjaldskýlið er skreytt um jólin og þau eru með aðventuljós og jólasveina hjá sér. „Við getum kveikt á kerti og erum með nóg af konfekti og kaffi,“ segir Þórunn. Eins og vera ber eru þau líka uppáklædd í vinnunni í dag. Gunnar í jakkafötum, hvítri skyrtu og með slifsi og Þórunn í jólakjól. Þau opna samt ekki jólapakka í skýlinu. „Nei, ég bíð með það þar til ég kem heim eftir vaktina,“ segir Gunnar og Þórunn tekur undir með honum.

Þau eru ánægð í vinnunni og bera vegfarendum vel söguna, segja að þeir séu almennt kurteisir, og ekki síst á jólum. „Það óska okkur allir gleðilegra jóla eða gleðilegs nýs árs,“ segir Gunnar. „Sumir vorkenna okkur að þurfa að vinna á þessum tíma, en svona er þetta og það er víða sem þarf að standa vaktina,“ segir Þórunn.

Gunnar Jón Sigurjónsson við störf í gjaldskýlinu í Hvalfjarðargöngum.
Gunnar Jón Sigurjónsson við störf í gjaldskýlinu í Hvalfjarðargöngum. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert