Jólasaga sem á erindi við þig

mbl.is óskar lesendum sínum gleðilegrar hátíðar og friðar.
mbl.is óskar lesendum sínum gleðilegrar hátíðar og friðar. Árni Sæberg

„Ef maður undirbýr jólin ekki í hjarta sínu, þá finnur maður þau örugglega ekki undir trénu, ekki í Smáralindinni né neins staðar annars staðar. Það sem snertir hinn dýpsta hjartastreng og veitir tilhlökkun og gleði gefur hið sanna inntak,“ segir Sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson, sóknarprestur Seljakirkju, í jólahugvekju sinni fyrir mbl.is.

mbl.is óskar lesendum sínum gleðilegrar hátíðar og friðar.

Jólasaga sem á erindi við þig

Klukkurnar hafa hringt inn helga hátíð og um veröldina alla fagnar kristið fólk jólahátíðinni. Það tendrar ljós og gefur hvert öðru gjafir og finnur sömu kenndina þegar það heyrir orðin sem flutt eru á um það bil tvö þúsund tungumálum: „Yður er í dag frelsari fæddur.” Það rifjar upp sömu söguna, syngur jafnvel sömu sálmana á ólíkum tungumálum um fæðingu frelsara mannkyns og upplifir helgi hátíðar sem hefur svo mikil áhrif, bæði í sögu og samtíð.

Jólaguðspjallið er frásögn sem kynslóð eftir kynslóð hefur fengið að njóta að heyra og upplifa. Í aðdraganda jólanna er víða siður að skólabörnin setji jólaguðspjallið á svið og túlki fæðingarfrásöguna. Það hefur þótt sjálfsagður siður um áratugaskeið um hinn gjörvalla kristna heim, enda eðlilegt að á skólagöngunni séu því gerð skil sem máli skiptir í samfélaginu.

Það hefur sannarlega verið mikið til umfjöllunar nú umliðnar vikur hvort það sé nú endilega nauðsynlegt að skólabörnin þurfi að heyra þessa frásögn og umræðan hefur jafnvel leiðst á þær brautir hvort að við prestarnir séum ekki hreinlega að brjóta mannréttindi þegar hátíðlegur helgileikurinn er settur upp í kirkjunni til þess að sem flestir viti við hvaða atburð við miðum tímatal okkar og skilji hvers vegna samfélagið allt breytir um takt þegar jólahátíðin nálgast. Kirkjuheimsóknir skólanna eru einstaklega hátíðlegur þáttur litlu jólanna í skólunum og ég held við getum flest tekið undir það að án jólaguðspjallsins væru jólin svo miklu fátækari að innihaldi og hátíðleik.

Auk þess gefur frásögnin svo mörg tilefni til skemmtilegrar umræðu, um gjafir og góðvild, fátækt og erfiðleika en umfram allt um trú, von og kærleika.  Það var í einni kirkjuheimsókn sem að presturinn spurði yfir barnahópinn hvort einhver vissi hvar jólin væri raunverulega að finna. Margar hendur fóru á loft og svaraði lítil stúlka, viss í sinni sök, já ég veit það sko, jólin þau eru í Smáralindinni. Prestur sagði að það væri nú ekki alveg rétt, því jólin væri fyrst og fremst að finna í hjartanu. Þá svaraði sú stutta, ja hérna, þetta verð ég að segja henni mömmu minni, hún veit þetta alveg örugglega ekki.  

Staðreyndin er nefnilega sú að ef maður undirbýr jólin ekki í hjarta sínu, þá finnur maður þau örugglega ekki undir trénu, ekki í Smáralindinni né neins staðar annars staðar. Það sem snertir hinn dýpsta hjartastreng og veitir tilhlökkun og gleði gefur hið sanna inntak. Þess vegna er frásagan frá Betlehem einstök og boðskapur hennar svo mikilvægur, því hann snertir við manni og skiptir raunverulega máli. Fæðing Jesú er ekki eitthvað sem einungis tilheyrir fortíðinni, heldur er sá atburður sem markaði upphaf að þeim mestu breytingum sem orðið hafa á heimsmyndinni í gegnum allar aldir, breytti og bætti siðferði, trú og hvað sem menn vilja segja, þá er staðreyndin sú að engin önnur trúarbrögð eða hugmyndafræði leggur eins mikla áherslu á náungakærleika og samfélagsábyrgð eins og hin kristna trú. Þetta er saga sem á erindi við allar kynslóðir, ekki síst við okkur sem lifum á miklum ógnarhraða á 21. öldinni.  

Við þurfum að heyra og við þurfum að skilja hvers vegna Drottinn sjálfur birtist þessum heimi. Það hefur verið reynt að útskýra það á sem fjölbreyttastan hátt, með sögum og leikritum, myndlist og málverkum svo ekki sé minnst á öll ljóð og annan kveðskap sem tengist jólahátíðinni. Eitt ljóð hef ég í sérstöku uppáhaldi sem segir frá lífsskeiði frelsarans í afar stuttu máli og hefur titilinn Eitt einstakt líf:

Það var einu sinni ungur maður,
sonur bóndakonu,
sem bjó í afskekktu þorpi
og vann á smíðaverkstæði,
þar til hann varð þrítugur.
Þá gerðist hann farandprédikari
og ferðaðist um í 3 ár.
Hann skrifaði aldrei bók,
hann gegndi aldrei embætti.
Hann átti aldrei heimili
eða stofnaði fjölskyldu.
Hann gerði ekkert af því
sem venjulega gerir fólk að mikilmennum.
Hann skartaði engu nema sjálfum sér.

En almenningsálitið snerist gegn þessum unga manni.
Vinir hans flúðu og hann var framseldur óvininum.
Hann var hæddur og dæmdur
til að vera negldur á kross
á milli tveggja þjófa.
Þegar ungi maðurinn var að dauða kominn
vörpuðu böðlar hlutkesti
um það eina sem hann átti:
klæðin hans.
Þegar hann var dáinn
fékk hann hvílu í gröf
sem var í eigu vinar
sem hafði samúð með þessum unga manni.

Síðan þá hafa 19. aldir komið og farið
og í dag er þessi ungi maður
hornsteinn í lífi stórs hluta mannkyns
og leiðtogi framfara.
Allir þeir herir sem barist hafa,
allir þeir flotar sem siglt hafa,
öll þing sem setin hafa verið
og allir þeir konungar sem hafa ríkt
hafa ekki haft jafnmikil áhrif
á mannkynssöguna eins og þetta
eina einstaka líf.

(Sænskt ljóð – þýðing sr. Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju)

Leyfðu barninu í jötunni að hafa áhrif á líf þitt allt, leiða, styðja og styrkja eins og kynslóðir um víða veröld hafa gert og fundið þá blessun sem því fylgir, hvort sem það er á stundum þrenginga og erfiðleika eða þegar gleði og hamingja er við völd. Það er styrkjandi að vita að maður er aldrei einn á ferð. Megi góður Guð gefa þér og þínum góð og gleðileg jól.

Sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson, sóknarprestur í Seljakirkju.
Sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson, sóknarprestur í Seljakirkju. mbl.is/Styrmir Kári
Seljakirkja í vetrarskrúða.
Seljakirkja í vetrarskrúða. Ljósmynd/Valgeir Ástráðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert