Vilja gefa Íslendingum gjafir

Staflinn undir trénu er orðinn býsna myndarlegur en fjölskyldunni finnst …
Staflinn undir trénu er orðinn býsna myndarlegur en fjölskyldunni finnst Íslendingar hið rausnarlegasta fólk. Skjáskot

„Á næsta ári viljum við og dætur okkar gefa Íslendingum gjafir,“ segir Wael Aliyadah fjölskyldufaðir sýrlenskrar flóttafjölskyldu og bætir við, í samræmi við hinn sanna jólaanda, að fjölskyldunni finnist mikilvægt að gefa en ekki einungis þiggja. 

Í Facebook hópnum „Gefins, allt gefins,“ hefur að undanförnu farið fram söfnun fyrir sýrlenska flóttafólkið, sem bíður nú eftir úrskurði frá kærunefnd útlendingamála, svo þau geti haldið hátíðleg jól. Fjölmargir hafa lagt sitt af mörkum og sjá má á meðfylgjandi mynd að þau eru búin að koma sér upp jólatré og pakkarnir orðnir margir.

Wael segir í samtali við mbl.is að nú bíði fjölskyldan og dætur hans eftir því að klukkan slái sex eftir því að opna gjafirnar, eins og venja sé til og að þau séu öll rosalega glöð. Wael er þakklæti efst í huga en hann segir Íslendinga eitthvert viðkunnanlegasta og örlátasta fólk sem hann hafi hitt fyrir. Hann segir að fari mál sitt vel hjá kærunefndinni þannig að fjölskylda hans fái dvalarleyfi vilji þau gefa til baka. 

Aðspurður segist hann þó ekki vita hvar mál hans er statt í meðferð kærunefndarinnar né hvenær niðurstöðu sé að vænta. Tæplega fimm þúsund manns hafa ritað nafn sitt við beiðni um að fjölskyldan fái að dveljast hér á landi en listinn hefur þegar verið afhentur Útlendingastofnun.

Eins og mbl.is hefur fjallað um þá hefur fjölskyldan dvalið hér á landi í fimm og hálfan mánuð eftir ársdvöl í Grikklandi þar sem þau fengu hæli. Dætur þeirra tvær sækja nú leikskóla á Íslandi en fjölskyldan óttast að verði þau send á nýjan leik til Grikklands muni þau ekki búa við mannsæmandi lífskjör og jafnvel á götunni. 

Sigríður Jónsdóttir er hvatakonan að söfnuninni en hún segir að auk fólksins í „Gefins, allt gefins“ hópnum hafi einnig einstaklingar úr Facebook-hópunum „Brask og brall“ og „Góða systir“ tekið þátt í söfnuninni en jafnframt fólk henni tengt. Aðspurð hvað hafi orðið til þess að hún setti söfnunina af stað segir Sigríður: 

„Ég setti þetta í gang því þetta eru vinir mínir og hef þekkt þau síðan þau komu hingað. Ég vildi leyfa þeim að halda gleðileg jól og losna undan áhyggjunum sem þau hafa þurft að glíma við.“ 

Sjá fyrri frétt mbl.is: „Vilj­um ekki enda á göt­unni“

Sjá fyrri frétt mbl.is: Ótt­ast að lög­regl­an sæki þau

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert