Hélt jól í móttökustöð flóttamanna

Hinn ómissandi jólasveinn lét sig ekki vanta og sést hér …
Hinn ómissandi jólasveinn lét sig ekki vanta og sést hér ásamt Kinan, sjálfboðaliða frá Sýrlandi. Þórunn Ólafsdóttir

Enn kemur daglega fjöldi fólks til grísku eyjanna í leit að betra lífi en Þórunn Ólafsdóttir er stödd á eynni Lesbos um þessar mundir þar sem hún sinnir sjálfboðaliðastarfi við móttöku flóttafólks. Þar gáfu sjálfboðaliðar sér stund milli stríða til þess að halda saman upp á jólin.

„Jólin eru búin að vera fín. Það var hörkustemning í gær þegar sjálfboðaliðarnir á eyjunni, ásamt heimafólki, héldu saman jólahátíð í búðunum sem ég er að vinna í. Flóttafólkið var allt farið fyrir kvöldið en krakkarnir hjálpuðu til að skreyta um daginn,“ sagði Þórunn. „Jólamaturinn var blanda af allskonar sem fólk kom með hvert frá sínu landi og tínt til það sem var fáanlegt hérna á svæðinu. Það fór a.m.k. enginn svangur heim.“

Sífellt erfiðari og hættulegri ferð

Nýlega var tekið á móti um þúsund manns á Lesbos á einum degi, sem er það mesta í langan tíma en bæði vegna veðurs og pólitískra aðstæðna hefur hægt á fólksstraumnum til Evrópu eftir þessari leið. Á eynni segir Þórunn þó móttökuna ganga mun betur fyrir sig en áður, hjálparstarfið sé orðið byggt á reynslu og starfsfólkið sömuleiðis vant. Veðrið hefur verið gott undanfarið en engu að síðar hafa orðið alvarleg og mannskæð slys.

„Það er allt öðruvísi ástand en heldur en þegar ég kom hingað í sumar. Það koma mun færri hingað en það hefur á móti aukist að fólk fari beint til Mytilene sem er höfuðstaðurinn á eynni. Þar eyddi ég einni kvöldstund nýlega, þar sem allt flóttafólk á eyjunni þarf að fara í gegnum skráningu. Ég veit ekki hversu mörg þúsund manns voru þar þá en ástandið er mjög erfitt.“

Flóttafólkið á Lesbos kemur þangað á bátum mestmegnis frá Tyrklandi en breyting hefur orðið á straumnum að sögn Þórunnar. „Eftir að Evrópusambandið gerði þennan hrikalega samning við Tyrki um að greiða þeim fyrir að loka landamærunum hefur ástandið hérna á Lesbos breyst mikið. Tyrkir eru meira og minna búnir að loka landamærunum að Sýrlandi svo það er bæði erfitt og hættulegt að komast yfir til Tyrklands.“

Brotnir trébátar á víð og dreif um ströndina

Stór breyting hefur orðið í þeim bátakosti sem fólk siglir til eyjarinnar frá því Þórunn var þar í sumar. „Fólk er að koma mikið á stórum trébátum. Það er bátur við ströndina þar sem ég er mikið að vinna, ekkert sérstaklega stór, og það komu á honum 330 manns. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum það komust svona margir um borð í þennan bát en það er svona sem þessi slys verða: Ofhlaðnir bátar sigla í strand og lenda í öðru þess háttar. Þetta er eiginlega hættulegra en gúmmíbátarnir sem fólk var að koma á og þeir eru nógu hættulegir fyrir.“

Þeir fara aðeins í gegn sem vitað er að tekið verði við

Flest flóttafólk sem kemur til Lesbos stöðvar þar aðeins í stuttan tíma áður en það heldur áfram för sinni norðar í Evrópu. Það á þó aðeins við þá sem yfirvöld telja að tekið verði á móti annars staðar í álfunni og borið hefur á því að fólk sé stöðvað og sent aftur til síns heima. „Það er hérna hópur af fólki frá Marokkó sem stendur til þess að handtaka án þess að þau fái möguleika á að sækja um hæli. Þau eru í hungurverkfalli og hafa verið í um tíu daga. Fólk frá löndum eins og Sýrlandi, Írak og Afganistan gengur í raun fyrir og það eru á móti hópar sem mæta afgangi.“

Þórunn Ólafsdóttir ásamt stúlku sem hún hitti sem sjálfboðaliði í …
Þórunn Ólafsdóttir ásamt stúlku sem hún hitti sem sjálfboðaliði í sumar. Ljósmynd/Þórunn Ólafsdóttir
Mynd sem grísk yfirvöld dreifðu af röð flóttafólks við skráningarmiðstöð …
Mynd sem grísk yfirvöld dreifðu af röð flóttafólks við skráningarmiðstöð á Lesbos. AFP
Sjálfboðaliðar fögnuðu jólunum saman.
Sjálfboðaliðar fögnuðu jólunum saman. Þórunn Ólafsdóttir
Fjöldi yfirgefinna báta, bæði heilir og mölbrotnir, liggur á og …
Fjöldi yfirgefinna báta, bæði heilir og mölbrotnir, liggur á og við strandir Lesbos. Þórunn Ólafsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert