Tjónið nemur tugum milljóna

Frá aðgerðum björgunarsveitarmanna á Egilsstöðum í nótt.
Frá aðgerðum björgunarsveitarmanna á Egilsstöðum í nótt. Mynd/Kjartan Benediktsson, Björgunarsveitinni Héraði

Hrafnkell Guðjónsson, annar eiganda rafvélaverkstæðisins Rafey á Egilsstöðum, telur að tjónið sem varð þegar þakplötur verkstæðisins fuku af í morgun nemi tíu til tuttugu milljónum króna.

Hann frétti af því sem gerðist snemma í morgun. „Björgunarsveitarmaður sem býr rétt hjá vaknaði upp við læti um fimm í morgun. Hann fór á staðinn, sá hvað var og hringdi út,“ segir Hrafnkell.

Frétt mbl.is: Miklir vatnavextir á Egilsstöðum

Þakplötur úti um allt

Þegar hann mætti á staðinn voru plötur úti um allt. Flestar höfðu þær fallið rétt við húsið og telur Hrafnkell ólíklegt að nærliggjandi bílar hafi orðið fyrir þeim. „Það er alla vega óverulegt tjón ef það hefur verið eitthvað.“

Snjó var mokað á þakplöturnar til að halda þeim kyrrum og þeim hefur síðan verið komið fyrir í gámum.

Tækjum komið í skjól

Allt er stopp í fyrirtækinu enda er rokið ennþá mikið á svæðinu og ekki hægt að senda menn upp til að festa þakplötur aftur á. Timbur og einangrun heldur mesta veðrinu og vindum í burtu frá verkstæðinu en þó kemst einhver rigning í gegn. Hrafnkell og félagar hafa því haft í nógu að snúast við að koma tækjum í skjól svo þau verði ekki fyrir skemmdum.

Samkvæmt veðurspánni á að lygna þegar líður á daginn og þá verður hafist handa við að negla plötur aftur á þakið.

Voru í skjóli frá steypustöð 

Aðspurður segir Hrafnkell það hafa komið sér mjög á óvart að þakið skuli hafa fokið af í morgun. „Það hefur oft komið verra veður en þetta. Hluti af skýringunni er kannski að það var skjól af steypustöð sem var við hliðina á okkur en hún var rifin í vetur,“ segir hann en þak verkstæðisins er 700 fermetrar og var húsið byggt árið 1990.

Frétt mbl.is: Þak fauk af húsi á Egilsstöðum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert