Vaxandi aðsókn í brennuferðir

mbl.is/Brynjar Gauti

„Við höfum verið með þessar ferðir í 15 ár þar sem farið er á brennur og flugeldasýningar á miðnætti. Uppistaðan er tvær ferðir þar sem annars vegar er farið á brennu og síðan í kaffiboð á meðan Íslendingar horfa á áramótaskaupið. Síðan er haldið aftur af stað og fundinn góður útsýnisstaður til þess að fylgjast með flugeldunum.“

Þetta segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Iceland Excursions, í samtali við mbl.is en fyrirtækið býður ferðamönnum upp á ferðir um áramótin þar sem upplifa má áramótastemningu landsmanna. Aðspurður segir Þórir að aðsóknin í ferðirnar hafi farið vaxandi undanfarin ár og útlit sé fyrir metkvöld í ár. Í það minnsta töluverð aukning frá því í fyrra.

„Við verðum einnig með norðurljósaferð í boði á gamlárskvöld ef norðurljósin láta sjá sig. Áramótin eru bara eins og hver annar dagur hjá okkur að því leyti að það er fullbókað. Það er mikið af ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu og þeir vilja hafa eitthvað fyrir stafni og við reynum einfaldlega að standa undir því og anna eftirspurninni,“ segir Þórir.

Sif Helgadóttir, markaðsstjóri hjá Reykjavík Excursions, tekur í svipaðan streng. Fyrirtækið býður að sama skapi upp á ferðir á gamlárskvöld þar sem markmiðið er að gera ferðamönnum kleift að upplifa íslensk áramót með heimamönnum. Bæði ferðir á brennur og einnig til að mynda ferðir sem snúast um hið þjóðsagnakennda við íslensk áramót.

Spurð um aðsóknina segir hún aukningu á milli ára. „Við erum alltaf að vinna með þetta séríslenska og leggjum áherslu á það. Það er auðvitað mjög mikið af ferðamönnum á landinu á þessum tíma og við erum að koma til móts við það og gera þeim kleift að upplifa íslenska viðburði eins og til að mynda áramótabrennur.“

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert