Tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald

Tveir karlmenn um tvítugt hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 14. janúar vegna rannsóknar á ráni í útibúi Landsbankans í Borgartúni í Reykjavík í gær. Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is hefur fjallað um barst tilkynning um ránið klukkan 13.22 í gær, en ræningjarnir komust undan með óverulega fjármuni. Lögreglan hóf í kjölfarið umfangsmikla leit að mönnunum. Bíllinn, sem var notaður við ránið, fannst í Hlíðunum í Reykjavík, en hann reyndist stolinn. Síðar fannst hnífur og eftirlíking af skammbyssu sem lögregla telur að hafi verið notað við ránið. Annar mannanna var handtekinn í nótt og er grunaður um aðild að ráninu en hinn gaf sig fram við lögreglu eftir að lýst var eftir honum. Hann hefur játað aðild að ráninu.

Ránsfengurinn úr ráninu fannst í hádeginu í dag í kjölfar leitar lögreglu í Öskjuhlíð. Mennirnir tveir hafa báðir áður komið við sögu hjá lögreglu. Yfirheyrslur fóru fram í dag en rannsókn málsins er sögð miða vel. Lögreglan lagði fram gæsluvarðhaldskröfu sem samþykkt var af dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert