Landbúnaðarstyrkir á við þrefalt Icesave

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr búvörusamningur til tíu ára gæti verið á við þrefalda Icesave-skuldbindingu. Lengd samningsins bindur auk þess hendur næstu tveggja ríkisstjórna við fjárlagagerð. Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir eðlilegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um nýjan 180 milljarða króna búvörusamning.

Unnið er að nýjum búvörusamningi við bændur sem á að taka við af núverandi samningum sem renna út á næstu tveimur til þremur árum. Stefnt er að því að gera einn rammasamningi fyrir allan landbúnaðinn með undirsamningum fyrir einstakar búgreinar.

Í grein í áramótablaði Viðskiptablaðsins fer Finnur gagnrýnum orðum um nýjan búvörusamning. Hann bendir á að samkvæmt skýrslum OECD nemi stuðningur neytenda við landbúnaðarkerfið á Íslandi um átján milljörðum árlega. Sérhagsmunaaðilar ræði nú um nýjan samning til tíu ára án þess að neytendur, sem greiði fyrir samninginn, eigi aðild að þeim viðræðum.

Búvörusamningur í þjóðaratkvæði

Finnur setur upphæðina, 180 milljarða króna á tíu árum, í samhengi við Icesave-skuldbindingarnar sem var vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins árið 2012 hefði kostnaður af Bucheit-samningnum numið um 64 milljörðum króna. Sambærilegt mat GAMMA hafi hljóðað upp á 59 milljarða króna. Kostnaður nýs búvörusamnings geti þannig verið á við þrefaldar Icesave-skuldbindingar.

„Er það fráleit hugmynd að almenningur fái að kjósa um það hvort hann vilji verja 180 milljörðum í að viðhalda úreltu landbúnaðarkerfi?“ spyr Finnur í grein sinni.

Í samtali við mbl.is segir Finnur að honum þyki eðlilegt að samningurinn komist til umræða á breiðari vettvangi en nú eigi sér stað í ljósi þeirrar upphæðar sem um ræðir og þeirra hagsmuna sem séu í húfi. Ótrúlegt sé að lauma eigi slíkum samningi í gegn án þess að ítarleg umræða fari fram því fyrir þessar fjárhæðir sé hægt að gera ýmislegt annað.

„Samningurinn er rándýr fyrir íslensk heimili og hann er ekki að skila bændum ábata,“ segir Finnur sem telur að verið sé að verja þrönga sérhagsmuni með samningnum.

Þá bendir Finnur á að með samningi sé ríkið, ríkissjóður og fjárlagagerð bundin til tíu ára sem hann telur óeðlilegt.

„Samningur til tíu ára þýðir skattlagningu í tíu ár. Samningurinn kemur til með að binda tvær næstu ríkisstjórnir, þó hvor um sig sitji fullt kjörtímabil. Núverandi ríkisstjórn ætlar því að ákveða útgjöld a.m.k. tveggja næstu ríkisstjórna og binda fjárveitingarvaldið til útgjalda á kostnað neytenda til ársins 2027,“ skrifar Finnur í grein sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert