Fyrsta íssundið: „Þetta var frábært“

Ram Barkai frá Suður-Afríku synti yfir Pollinn við Akureyri í gærdag og telst það fyrsta formlega íssundið við Ísland. Kalla má sundið því nafni þegar viðkomandi er í sundskýlu einni fata (eða sundbol) og sjórinn kaldari en fimm gráður. Barkai synti rétt rúma mílu, um 1700 metra. Sundið tók um hálftíma.

„Svona sund er aldrei auðvelt og alltaf hættulegt en þetta gekk mjög vel enda fagmannlega að öllu staðið og öryggið var tryggt. Þetta var frábært,“ sagði Barkai við Morgunblaðið eftir sundið í gær.

Tveir menn frá Slökkviliðinu á Akureyri, menntaðir sjúkraflutningamenn, sigldu litlum báti við hlið Barkai allan tímann og fylgdust vel með honum. Þeir fluttu hann fyrst á bátnum frá athafnasvæði siglingaklúbbsins Nökkva við Drottningarbraut yfir að Vaðlaheiði, þar sem hann hóf sundið og stefndi á menningarhúsið Hof. Hann fór ekki alla leið að höfninni við Hof heldur kom um borð í bátinn skömmu áður, eftir að hafa synt rúmlega eina mílu, sem var takmarkið. Þetta var í níunda skipti sem Barkei syndir svokallaða ís-mílu, bara í sundskýlu og sjórinn kaldari en fimm gráður. Hann hefur enn oftar farið 1 km í íssundi.

Stórkostlegt að synda á gamlársdag á Íslandi

„Ég byrjaði betur í dag en ég hafði reiknað með en eftir um það bil einn kílómetra varð vindurinn erfiðari viðfangs, við breyttum aðeins stefnunni, ég fór að súpa sjó og hann kólnaði dálítið skv. mælingu í úrinu mínu, svo ég ákvað að hætta þegar ég hafði lagt að baki þá vegalengd sem ég ætlaði mér. Mér finnst stórkostlegt að hafa gert þetta á gamlársdag á Íslandi og er gríðarlega ánægður með það. Ísland er mjög sérstakur staður til að synda.“

Barkai er stofn­andi alþjóðlegs fé­lags íssund­skappa, sem á ensku nefn­ist In­ternati­onal Ice Swimm­ing Associati­on (IISA), en það var stofnað árið 2009. Hann hefur ferðast nokkuð um til að breiða út boðskapinn. „Fyrir fjórum árum var ég á gamlársdag við Norður-Írland og fyrir nákvæmlega ári var ég í Prag. Ég ætlaði að vera í Skotlandi núna en eftir að ég fékk skilaboð frá Benedikt [S. Laufleur] á Facebook ákvað ég að koma hingað.“

Líður eins og inni í frysti!

Fyrir nokkrum árum synti Barkai við Suðurskautslandið (Antarktíka), þar sem hitastig var við frostmark en sjávarhiti mínus ein gráða. „Aðstæður í dag minntu mig dálítið á það sund. Sjórinn mjög dimmur, engin sól og skýjað. Við Antarktíka var mjög kalt en enginn vindur, í dag fór vindurinn hins vegar allt upp í 20 hnúta og ekki hægt að segja að annað sundið hafi verið erfiðara en hitt. Það var erfitt að synda í dag, sérstaklega vegna vindsins; þegar maður er blautur í svona miklum vindi líður manni eins og vera inni í frysti! Þetta er öfgasport og maður verður að vera mjög vel þjálfaður, vera í góðu líkamlegu ástandi og heilbrigður. Það þarf að æfa mjög mikið fyrir svona þrekraun. En þegar maður er kominn af stað myndi ég segja að sundið snérist 80% um hugarfar. Hugurinn öskrar stanslaust á mann að hætta þessu!“

Eftir að Barkai lauk sundinu fékk hann að hlýja sér í Stjörnusól. Fór fyrst í sturtu og skellti sér síðan í heitan pott.

Benedikt S. Lafleur hugðist einnig synda á Pollinum í dag, á eftir Barkei, en af því varð ekki. Hann ætlaði frá athafnasvæði siglingaklúbbsins Nökkva út að menningarhúsinu Hofi en vegna þess hve það tafðist að Suður-Afríkubúinn hæfi sundið reyndist ekki tími til þess. „Undirbúningurinn tók lengri tíma en við ætluðum okkur þannig að ég neyðist til að synda seinna. Það er leiðinlegt að missa af þessu, við höfðum þrjá tíma en svigrúmið reyndist ekki nóg. Það hefði verið betra að vera með tvo báta en var ekki hægt núna, en ég er afar  þakklátur slökkviliðsmönnunum fyrir aðstoðina,“ sagði Benedikt S. Lafleur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert