Hlúum að lífinu, segir biskup

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Ómar

„Þó við áætlum um framtíðina þá ráðum við ekki öllu. Við verðum að lúta því sem lífið býður. Samt ráðum við býsna miklu um líf okkar og lífsstefnu. Það er því grátlegt að horfa upp á það sem til óheilla horfir af mannanna völdum,“ sagði Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, í nýárspredikun sinni í Dómkirkjunni í morgun.

„Ófriður og óréttlæti veður uppi víða sem veldur einstaklingum og þjóðum erfiðleikum og jafnvel kvölum. Vímuefni lama lífsþrótt og valda skaða einstaklingum og fjölskyldum. Börn búa mörg við erfið kjör. Af nógu er að taka þegar horft er til myrkari hliða mannlífsins og næg eru verkefnin sem þarf að kljást við. Sem betur fer eru fleiri hliðar mannlífsins sem eru gleðilegar, nærandi og gefandi. Þar er verkefnið að viðhalda því ástandi. Upp í hugann kemur hugsunin um lífið og hvernig því er lifað við mæri tveggja ára,“ sagði hún.

Í predikun sinni kom biskup m.a. inn á loftslagsbreytingar, nýafstaðna loftslagsráðstefnu í París og það sem er framundan.

„Þjóðkirkjan vill leggja sitt af mörkum til þessa mikilvæga verkefnis. Ákveðið hefur verið að endurheimta votlendi í Skálholti og til skoðunar er að slíkt eigi sér stað á fleiri kirkjujörðum. Endurheimt votlendis er mikilvægt skref í átt að breytingu á kolefnisbúskapnum. Mýrar hafa að geyma óhemju magn af kolefni og allar breytingar í kolefnisbúskap þessara vistkerfa eru því mikilvægar á hnattræna vísu. Hingað til höfum við einblínt á mengun frá farartækjum og slæma umgengni um náttúruna sem er vel. Það hefur komið mörgum á óvart að endurheimt votlendis hefði svo mikil áhrif sem raun ber vitni í átt til byggilegri heims.

Í kjölfar umhverfisþings sem haldið var í Skálholti í nóvember var mennta- og menningarmálaráðherra afhent yfirlýsing viðstaddra þar sem þeir hvetja ráðherrann til að beita sér fyrir stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar og umhverfisvá. Fræðsla er nauðsynleg til að komandi kynslóðir hafi þekkingu til að umgangast sköpunarverkið af þeirri virðingu sem því ber.“

Biskup sagði frið þýða jafnvægi en að ófriður ríkti á jörðinni af mannavöldum.

„Það geisar stríð, svo grimmt að fjöldi manns hefur yfirgefið landið sitt og leitað ásjár í Evrópu. Sýrlendingar eru þar fjölmennir, en margir hafa líka flúið lönd í Afríku. Annar ófriður af mannavöldum er ójafnvægið sem skapast hefur í vistkerfi jarðarinnar með aukinni mengun og hækkandi hitastigi af völdum gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsráðstefnan í París brást við þeim vanda af fagmennsku og samvinnu en einnig vilja til að vinna sköpunarverkinu gagn.

Okkur mönnum var ekki falin ábyrgð á sköpunarverkinu og við gerð að samverkamönnum skaparans sjálfs til að eyða og deyða heldur til að viðhalda og nýta. Okkur var falin ábyrgðin með nýtingarrétti en ekki eyðingarrétti. Friðurinn, jafnvægið verður að ríkja til að búandi sé áfram á jarðarkringlunni. Á þann frið erum við líka minnt í guðspjalli jólanna. Þeim friði fylgir velþóknun Guðs og hana skulum við ekki forsmá. Þeim friði fylgir óttaleysi og kraftur til að takast á við verkefni lífsins.“

Predikun biskups má finna á trú.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert