Ástþór ætlar í forsetaframboð

Ástþór Magnússon hefur ákveðið að endurtaka forsetaframboð sitt með ósk …
Ástþór Magnússon hefur ákveðið að endurtaka forsetaframboð sitt með ósk um að taka þátt í kjöri forseta Íslands þann 25. Júní 2016. mbl.is/Golli

Ástþór Magnússon hefur ákveðið að endurtaka forsetaframboð sitt „Virkjum Bessastaði“ með ósk um að taka þátt í kjöri forseta Íslands þann 25. júní 2016. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér til Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og til fjölmiðla.

Í bréfinu segir hann áhyggjuefni hvað íslenskir fjölmiðlar hafi ítrekað verið misnotaðir í aðdraganda kosninga til að draga taum einstakra frambjóðenda og þannig hafi fjölmiðlarnir mótað skoðanir almennings og í raun ráðið úrslitum kosninga.

Hann segir forsetaframboð sitt snúast um að virkja embættið til að boða nýja hugmyndafræði í friðarmálum. „Það er ábyrgðarhluti ef fjölmiðlar eru látnir komast upp með að útiloka alla opna umræðu um þetta málefni sem er okkur Íslendingum og heimsbyggðinni allri svo mikilvægt. Sérstaklega nú þegar ófriðareldar loga víða um heim og jafnvel Evrópa stendur á barmi styrjaldar. Þjóðlíf og atvinnuvegir Íslendinga eins og t.d. ferðamannaiðnaður standa berskjaldaðir. Íslendingar geta ekki snúið bakinu í eldinn. Við þurfum að taka forystu gegn þessu ófriðarástandi. Að virkja Bessastaði með mætti orðsins og nýrri hugmyndafræði er okkar hlutverk.“

Þetta er í fjórða sinn sem Ástþór gefur kost á sér til embættis forseta. Fyrst bauð hann sig fram árið 1996, síðan aftur árið 2004 og 2012. Árið 2012 var þó framboð hans dæmt ógilt þar sem ekki lá fyrir vottorð yfir­kjör­stjórn­ar Norðvest­ur­kjör­dæm­is. Þar af leiðandi var talið að ákvæði 4. gr. laga um fram­boð og kjör for­seta Íslands, nr. 36/​1945 væru ekki uppfyllt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert