Grunur um galla í handblysum

Um tíu slys urðu af völdum handblysa á nýársnótt.
Um tíu slys urðu af völdum handblysa á nýársnótt. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við höfum vitneskju um að orðið hafi einhver slys tengd handblysum og erum með málið í skoðun,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum urðu um tíu slys af völdum handblysa á nýársnótt. Ekki er ljóst frá hvaða framleiðanda blysin koma og hvort þau hafi verið í sölu hjá björgunarsveitunum eða öðrum aðilum.

Jón segir að björgunarsveitin skoði ávallt öll mál ef grunur er um galla í flugeldum. „Ef það koma upp gallar ræðum við það við framleiðandann og komum því til áleiðis. Við erum tryggð fyrir tjónum sem þessum.“ Málið er í skoðun en enn eru engar upplýsingar komnar fram.

Hann segir flugeldasöluna skipta björgunarsveitirnar gífurlegu máli. „Hægt er að fjármagna allt að 90% af rekstri sveitanna með sölunni,“ segir Jón en bætur við að það fari þó allt eftir stærð sveita og hvernig flugeldasala gangi.

Enn liggja engar sölutölur fyrir en Jón áætlar að salan sé með svipuðu móti og fyrri ár. „Í ár er þó erfitt að henda reiður á hvað er að seljast betur en annað, salan er dreifð og það er ekkert eitt sem stendur upp úr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert