Sumir hafa ekki fengið pakka árum saman

Af Facebook síðu Jól í skókassa

„Fyrir þessa krakka, mjög oft er þetta eina gjöfin sem þeir frá. Sum hafa jafnvel ekki fengið pakka árum saman, eða nokkurn tíman. Þetta skiptir þessi börn gífurlegu máli. Það skiptir líka máli fyrir þau að vita að það er fólk þarna úti sem veit af þeim og sendir þeim gjöf,“ segir Björgvin Þórðarson, sjálfboðaliði hjá KFUM og KFUK á Íslandi. Rúmlega 5.300 pakkar voru sendir til úkraínskra barna í gegnum verkefnið Jól í skókassa sem hefur verið árlegt samstarfsverkefni KFUM og KFUK á Íslandi og Úkraínu síðan 2004.

Pakkarnir fara alltaf á svipað svæði í Úkraínu, í kringum Kirovograd að sögn Björgvins. Á svæðinu býr þverskurður af þjóðinni af hinum almenna borgara, ef svo mætti segja; venjulegt alþýðufólk og bændur. Á svæðinu er tengiliður íslenska KFUM og KFUK staðsettur, formaður úkraínska KFUM- og K, sem skipuleggur dreifinguna í samstarfi við heimafólk.

„Okkar markhópur er,  og hefur alltaf verið, börn á munaðarleysingjaheimilum, einhverskonar stofnunum og sjúkrahúsum,“ segir Björgvin og bætir við að þá fari pakkarnir einnig til einstæðra mæðra með líkamlega eða andlega fötluð börn.

Kassafjöldinn hefur tífaldast á áratug

Árið 2004, þegar verkefnið hóf göngu sína, söfnuðust 500 kassar. Björgvin segir að þá hafi verkefnið verið auglýst innan mjög afmarkaðs hóps og með skömmum fyrirvarna. „Við byrjuðum smátt,“ segir Björgvin en fram til ársins 2008 óx fjöldi pakkanna jafnt og þétt með ári hverju, og voru á milli fjögur- og fimmþúsund pakkar sendir til Úkraínu árin fyrir hrun.

„Þá varð smá samdráttur á þessu eins og alls staðar. Síðan hefur verkefnið verið að vaxa aftur og síðustu árin höfum verið að senda tæplega 5.000 kassa og í ár söfnuðust á milli 5.300 og 5.400 kassar,“ segir Björgvin.

Aðspurður hversu mörg heimili séu á bakvið gjafirnar svarar Björgvin því til að þau séu í kringum 5 þúsund talsins. „Við höfum gjarnan sagt að það sé eitt heimili á bakvið hvern kassa. Í sumum tilvikum eru fleiri en eitt heimili á bakvið hvern kassa og frá öðrum heimilum koma fleiri en einn kassi,“ segir Björgvin.

Kennir íslenskum börnum að jafnaldrar þeirra úti í heimi hafa það ekki eins gott

Björgvin segir skilaboðin sem Íslendingar senda börnunum í Úkraínu með gjöfunum vera að það sé fólk sem þyki vænt um þeim og vilji sýna þeim kærleika. „Margir foreldrar tala um það að verkefnið sé frábært til að kenna íslenskum börnum að það séu jafnaldrar úti í heimi sem hafa það ekki eins gott. Verkefnið kennir börnunum að gefa eitthvað af sínu dóti, af sínum allsnægtum til þeirra sem ekkert eiga. 

Jólahátíðin í Úkraínu er frábrugðin því sem Íslendingar eiga að venjast. Þar er 7. janúar þeirra jóladagur að sögn Björgvins, og eins eru pakkarnir þar teknir upp jafnóðum og þeir berast. „En kassinn er jólagjöf, hann tengist jólunum þó það sé ekki sama pakkamenning þar og hjá okkur,“ segir Björgvin.

Þrjár konur eru staddar í Úkraínu núna á vegum íslenska KFUM og KFUK. Eru þær að dreifa hluta kassanna frá Íslandi. Björgvin segir verkefnið ákaflega ánægjulegt, bæði að veðra vitni af því hversu margir taka þátt í því að gefa og hversu mikils virði verkefnið er fyrir mörgum.

„Það er fjöldi sjálfboðaliða sem kemur að þessu verkefni. Það gefur mikinn tíma og vinnu til þess að hjálpa til við verkefnið, því það þarfnast margra handtaka,“ segir Björgvin og tekur sem dæmi að sumir hugi að verkefninu allt árið um kring. „Við höfum tekið eftir því að fullorðnar konur hafa komið til okkar í nokkur ár með 40 kassa. Eru þær búnar að prjóna sokka, vettlinga, húfur og hvaðeina, og útbúa þetta mjög vel,“ segir Björgvin.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar að pakkarnir voru afhentir í Úkraínu. Fleiri myndir og fréttir af verkefninu má sjá á Facebook. 

Af Facebook síðu Jól í skókassa
Af Facebook síðu Jól í skókassa
Af Facebook síðu Jól í skókassa
Af Facebook síðu Jól í skókassa
Af Facebook síðu Jól í skókassa
Af Facebook síðu Jól í skókassa
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert