Andlát: Jón Þórisson

Jón Þórisson.
Jón Þórisson.

Jón Þórisson leikmyndateiknari lést á heimili sínu á Seltjarnarnesi á nýársdag, 67 ára gamall.

Jón fæddist á Siglufirði 19. október 1948 og ólst þar upp, sonur Þóris Konráðssonar bakarameistara og Hrannar Jónsdóttur húsmóður.

Jón lauk gagnfræðaprófi á Siglufirði 1963 en frá 1965 starfaði hann nær óslitið við leikmyndagerð í leikhúsi og fyrir kvikmyndir og sjónvarp. Hann stundaði nám við MHÍ kringum 1970, nam leikmyndagerð hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hlaut starfsþjálfun hjá Danmarks Radio & TV.

Jón starfaði lengst af hjá Leikfélagi Reykjavíkur en einnig fyrir Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Íslensku óperuna, Íslenska dansflokkinn, Ríkissjónvarpið, Stöð 2, þýsku stöðina NDR, London Weekend, Ísfilm og fjölda áhugamannaleikfélaga.

Jón vann með fjölmörgum sjónvarps- og kvikmyndagerðarmönnum, setti upp vörusýningar og átti þátt í hönnun og leikhústæknilegri útfærslu á Borgarleikhúsinu. Hann gerði hátt í 40 leikmyndir fyrir Leikfélag Reykjavíkur í Iðnó, Austurbæjarbíói og Borgarleikhúsinu. Hann vann mikið við kvikmyndir og sjónvarp, t.d. Land og syni, Útlagann, Vér morðingjar, Steinbarn, Hælið, Dómsdag og Brekkukotsannál (í samstarfi við Björn Björnsson).

Jón kom að undirbúningi og hafði umsjón með nokkrum erlendum gestasýningum á Listahátíð, m.a. fyrir San Francisco-ballettinn.

Hann átti sæti í stjórn Leikfélags Reykjavíkur af og til á árunum 1982 til 2000. Einnig var hann um langt skeið í inntökunefnd Félags íslenskra leikara og var einn af stofnendum Samtaka um leikminjasafn og sat þar í stjórn.

Á seinni árum starfaði Jón einkum við söfn og sögusýningar, t.d. Þórbergssetur á Hala í Suðursveit og Kjarvalsstofu á Borgarfirði eystra.

Eftirlifandi eiginkona Jóns er Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona og börn þeirra eru tvö; Steindór Grétar og Margrét Dórothea.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert