Öskruðu á vagnstjórann að opna dyrnar

Það varð drengnum til happs að aðrir gátu látið vagnstjórann …
Það varð drengnum til happs að aðrir gátu látið vagnstjórann vita. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Tíu ára drengur varð fyrir því í gær að bakpoki hans festist í dyrum strætisvagns. Var drengurinn á leið út úr vagninum þegar dyrnar lokuðust á eftir honum með þessum afleiðingum. Hugðist vagnstjórinn aka af stað en vinur drengsins náði að hrópa til hans og láta hann vita hvers kyns væri.

Faðir drengsins, Friðleifur Kristjánsson, hafði um leið samband við höfuðstöðvar Strætó, en þá hafði sonur hans hringt í hann skelfingu lostinn eftir atvikið. Hann segir í samtali við mbl.is að illa hefði geta farið.

„Það var bara heppni að einhverjir strákar voru þarna sem gátu öskrað á vagnstjórann að taka ekki af stað. Hver veit hvernig þetta hefði getað farið annars? Vagninn hefði allt eins getað dregið hann á eftir sér og undir sig,“ segir Friðleifur. Hann bætir við að hann sé þakklátur þeim sem komu syni sínum til hjálpar.

„Af hverju er búnaðurinn ekki virkur?“

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri strætó sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að sérstakur öryggisbúnaður ætti að vera til staðar til að koma í veg fyrir svona tilvik.

„Í fyrsta lagi eiga dyrn­ar ekki að geta lokast ef eitt­hvað er á milli þeirra, og í öðru lagi á vagn ekki að geta farið af stað ef dyrn­ar eru opn­ar,“ sagði Jóhannes.og bæt­ti við að um­rædd­ur búnaður hafi komið í stræt­is­vagna í kring­um árið 1990.

„Ef þetta kerfi á að vera í vögnunum þá hvet ég Strætó til að virkja það sem fyrst,“ segir Friðleifur og bendir á að sonur sinn hafi áður lent í keimlíku atviki, auk þess sem hann hafi fyrir skömmu orðið vitni af því þegar þroskahömluð kona klemmdist á milli hurðanna.

„Þá stendur eftir spurningin; af hverju er búnaðurinn ekki virkur?“

Frétt mbl.is: Keyrði af stað með barnavagn í dyrunum

Frétt mbl.is: Buðu móðurinni áfallahjálp

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert