Mannréttindi parsins tryggð

4 kg af kókaíni sem fannst á Íslendingum í Forta­leza …
4 kg af kókaíni sem fannst á Íslendingum í Forta­leza í Brasilíu. Ljósmynd/www.pm.ce.gov.br/

Lögreglustjóri brasilísku alríkislögreglunnar segir að mannréttindi íslenska parsins sem handtekið var á milli jóla og nýárs séu virt og tryggð í varðhaldi. Fólkið hefur haft lögmann skipaðan af hinu opinbera frá upphafi en konan er nú komin með sinn eigin lögmann sem fjölskylda hennar réði.

Haft var eftir Miriam Guerra D. Másson, brasilískum lögmanni sem hefur verið búsettur hér á landi í tíu ár, á mbl.is um helgina að brasilísk fangelsi séu með þeim verstu í heimi. Aðbúnaður fanga sé afar bágborinn.

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir lögreglustjóri alríkislögreglunnar í Ceará-ríki að mannréttindi Íslendinganna séu virt og tryggð, bæði í fangageymslum alríkislögreglunnar og í alríkisfangelsinu sem parið verður sent í þegar pláss losnar þar. Parinu séu tryggð föt, heilsugæsla, fæði, lögfræðiaðstoð og heimsóknir.

Íslendingarnir hafi fengið skipaðan opinberan lögmann strax við upphaf málsins. Konan, sem er tvítug, er nú komin með eigin lögmann en karlmaðurinn, sem er 26 ára, er enn með opinberan verjanda sinn.

Lögreglustjórinn getur hins vegar ekki staðfest fréttir um að meira magn hafi fundist af kókaíni í fórum fólksins en upphaflega var greint frá. Vísir hefur meðal annars sagt frá að magnið sem fannst hafi verið átta kíló en ekki fjögur eins og fyrst var talið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert