Skipar lesbíum til Íslands

Bainimarama ásamt Francois Hollande.
Bainimarama ásamt Francois Hollande. AFP

Forsætisráðherra Fiji, Frank Bainimarama, segir að ef konur vilja giftast öðrum konum eigi þær að flytja til Íslands og vera þar um kyrrt. Ummælin lét ráðherrann falla í kjölfar þess að Shamima Ali, framkvæmdastjóri Women's Crisis Center á Fiji, sagði að yfirvöld ættu að heimila samkynja pörum að ganga í hjónaband.

Ráðherrann sagði að hjónabönd samkynja para yrðu ekki heimiluð á Fiji á líftíma Ali og að aðgerðasinnar ættu ekki að láta orðlaga stjórnarskrárinnar um jafnrétti og ást rugla sig í ríminu.

Um hjónabönd lesbía sagði hann: „Farið og gerið það á Íslandi og verið um kyrrt og búið þar. Fiji þarf ekki á þessháttar rugli að halda.“

Sagt hefur verið frá ummælum Bainimarama í fjölmiðlum á Fiji og á Nýja-Sjálandi. Þar er m.a. haft eftir Ali að þeir fordómar og vanvirðing sem ráðherrann hefur sýnt séu ekki í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda um mannréttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert