„Vert að huga að tryggingum“

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld hafa kvartanir hrúgast inn á Facebook síðu Icelandair í dag vegna rafmagnshjólastóls sem brotnaði í flutningum inn í flugvél fyrirtækisins.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir að Drew Graham - notandi hjólastólsins, hafi fengið rúmlega 1.000 pund í skaðabætur og segir hann þá upphæð vera samkvæmt opinberum reglugerðum sem flugfélagið vinnur eftir. 

Í færslu sinni um málið segir Gary Graham hjólastólinn kosta 20 þúsund pund og að skaðabæturnar hrökkvi því skammt. Segir hann stólinn vera líflínu Drew við umheiminn en að nú sé hann ónothæfur. 

„Okkur þykir mjög miður að svona fór. Sem betur fer kemur afar sjaldan fyrir að hlutir eyðileggist svona á flugvöllum en þetta er auðvitað áminning um það að þegar fólk er með dýra hluti á ferðalögum er vert að huga að tryggingum,“ segir Guðjón.

Aðspurður segist hann ekki geta tjáð sig um hvort eðlismunur sé á skemmdum á nauðsynlegum tækjum fatlaðra og öðrum dýrum hlutum eða því hvort fyrirtækið muni endurskoða ákvörðun sína um upphæð skaðabótanna.

Frétt mbl.is: Icelandair á kafi í kvörtunum

Drew Graham hefur sjálfur deilt færslu á vegg Icelandair þar sem hann segist hafa gefið fyrirtækinu þrjár vikur til að gera það rétta í stöðunni áður en málið var opinberað fyrir almenningi. Deilir hann einnig eftirfarandi ljóði þar sem flugfélagið er varað við mætti veraldarvefsins.

"Icelandair you wrecked my chair!
I asked for help but you don't care,
Please resolve this fair and square,
Internet is a powerful thing so please beware!"

Upprunalegri færslu Gary Graham hefur nú verið deilt 1.900 sinnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert