Brugðist við sögusögnum um leka

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. mbl.is/Eggert

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögregluyfirvöld hafi brugðist við sögusögnum um leka úr fíkniefnadeildinni án þess að vitað hefði verið hverjir ættu hlut að máli.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag, en blaðið segist hafa heimildir fyrir því að grunur leiki á að lögreglumaðurinn, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, hafi fengið peningagreiðslur fyrir upplýsingar frá embættinu. Sigríður segist ekki geta staðfest það í samtali við Fréttablaðið.

„Það höfðu verið sögusagnir um leka úr fíkniefnadeildinni án þess að vitað væri hverjir ættu hlut að máli. Að sjálfsögðu er brugðist við slíku,“ segir Sigríður í viðtalinu þegar hún er spurð út í mál lögreglumannsins. Hann starfar í fíkniefnabrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en hann er grunaður um að hafa átt í óeðlilegum tengslum við brotahópa.

„Það getur legið alls konar hvati að baki svona málum. Það getur hafa átt sér stað þvingun sem enginn veit af. Það er ekkert sannað á hann og þetta mál er enn bara í rannsókn,“ segir Sigríður ennfremur.

Síðdegis í gær greindi RÚV frá því að annar maður hefði verið handtekinn í tengslum við málið. Fram kom að hann hefði hlotið dóm fyrir fíkniefnalagabrot. 

Lögmaður lögreglumannsins hefur farið fram á það við Héraðsdóm Reykjavíkur að lögreglunni verði gert að afhenda öll gögn vegna málsins, en lögmaðurinn gerði athugasemdir við það í samtali við mbl.is að hann og skjólstæðingur hans hefðu fengið afar takmarkaðar upplýsingar um málið og helstu sakarefni.

Rannsókn málsins er í höndum ríkissaksóknara. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert