ISAL bauð 24% launahækkun

Álverið í Straumsvík. Gerð var tilraun til að ná samkomulagi …
Álverið í Straumsvík. Gerð var tilraun til að ná samkomulagi í kjaradeilunni í gærkvöldi og í nótt en án árangurs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Launahækkanir í tilboði sem ISAL lagði fram í Straumsvíkurdeilunni á fundi ríkissáttasemjara 14. desember fólu í sér meiri kjarabætur en hópar á sambærilegum launum sömdu um á almennum vinnumarkaði í fyrra. Ofan á þær komu einnig umtalsverðir nýir bónusar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ISAL.

Gerð var tilraun til að ná saman í kjaradeilunni í gærkvöldi og í nótt, án árangurs.

Frétt mbl.is: Funduðu til klukkan fjögur í nótt

Buðu 24% launahækkun

Í tilkynningunni kemur fram að kostnaðarmat tilboðsins sem var lagt fram sé 20,4% út árið 2018, fyrir utan nýja bónusa sem gætu skilað allt að 8% viðbótarlaunum. Í ársbyrjun 2019 yrði 3% launahækkun. Alls var því um að ræða 24% launahækkun og allt að 8% til viðbótar í bónusum. Auk þess var fallist á að fylgja endurskoðun samninga á almennum markaði.

Hærra en veruleiki ISAL réttlætir

 „Í ljósi hríðlækkandi álverðs á mörkuðum er ljóst að tilboðið var hærra en fjárhagslegur veruleiki ISAL réttlætir að fyrirtækið bjóði. Þá hefur kjaradeilan sjálf valdið ISAL töluverðu tjóni, stofnað sölusamningum fyrirtækisins í tvísýnu og valdið óvissu meðal starfsmanna. Til að þrýsta á um lausn taldi ISAL því rétt að tímasetja tilboðið og láta það gilda til áramóta. Gildistíminn var síðan framlengdur  til 6. janúar,“ segir í tilkynningunni.

„Jafnframt var því lýst yfir að yrði tilboðinu ekki tekið myndi ISAL falla frá því að bjóða meiri kjarabætur en hópar á sambærilegum launum sömdu um á almennum vinnumarkaði. Myndi nýtt tilboð endurspegla betur þann fjárhagslega veruleika sem ISAL stendur frammi fyrir.“

Áratugagamlar sérreglur

„Sem kunnugt er hefur deilan strandað á því að verkalýðsfélögin hafa hafnað kröfu ISAL um að rýmka heimildir til að bjóða út tiltekin verkefni, en í þeim efnum situr ISAL ekki við sama borð og önnur fyrirtæki. Um ISAL gilda áratugagamlar sérreglur sem eiga sér enga hliðstæðu á Íslandi. ISAL hefur ekki farið fram á að fella sérreglurnar niður heldur einungis að þær verði rýmkaðar,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að málið hafi strandað á kröfu verkalýðsfélaganna um að verktakar og þjónustufyrirtæki  verði áfram látin greiða laun samkvæmt kjarasamningi ISAL þegar unnið er í Straumsvík. Slíkt fyrirkomulag sé ekki venja á íslenskum vinnumarkaði.

Meinað að búa við íslenskan veruleika

„Haft var eftir forsvarsmanni verkalýðsfélags í fjölmiðlum í morgun að stóri vandinn í þessari deilu væri sá, að móðurfélag álversins væri ekki í neinum tengslum við íslenskan veruleika. En því er einmitt öfugt farið: Fyrirtækið fer fram á að nálgast þau skilyrði sem almennt gilda á íslenskum vinnumarkaði. Deilan strandar á því að fyrirtækinu er meinað að búa við íslenskan veruleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert