Meter á milli skipa í hávaðaroki

Einungis metri var á milli Fróða II og Brynjólfs frá Vestmannaeyjum er taug var komið á milli þeirra í fyrrinótt en Fróða rak aflvana eftir að hafa fengið troll í skrúfuna. Þá fór rafmagnið af Brynjólfi um stund og skipstjóri Fróða viðurkennir að honum hafi ekki litist á blikuna því mikil alda var. 

Togskipið Fróði II var statt rétt fyrir utan Reykjanesið á Karfaveiðum í fyrrinótt þegar trollið flæktist í skrúfu skipsins og rak það því aflvana í þrjár klukkustundir þar til Brynjólfur kom á vettvang en það er mun stærra skip. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst skipverjum þó að koma taug á milli skipanna í tvígang en hún slitnaði í bæði skiptin.

„Það er ekkert hlaupið að þessu, líka í svartamyrkri og byl. Það er svolítið varasamt,“ segir Alexander. Þá var kallað í varðskipið Þór sem var komið á vettvang um hádegisbil í gær og dró Fróða í land en skipið sem er 28 metra langt og 300 tonn var komið í Hafnarfjarðarhöfn um tíuleytið í morgun.

mbl.is ræddi við Alexander um borð í morgun og í myndskeiðinu má einnig sjá myndir af Þór með Fróða í togi. 

Sjá frétt mbl.is: Þór til bjargar Fróða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert